Nýjar gular viðvaranir taka gildi vegna veðurs klukkan 11 í dag á Suðurlandi, við Faxaflóa og Breiðafjörð. Í hádeginu tekur gildi gul viðvörun á miðhálendinu og á Ströndum og Norðurlandi vestra klukkan 18 í kvöld.
Gular viðvaranir sem gilt hafa í rúman sólarhring víða um land féllu úr gildi klukkan sex í morgun.
Gera má ráð fyrir suðvestanátt 13 til 20 metrum á sekúndu með rigningu eða slyddu og síðar dimmum éljum á Suðurlandi, við Faxaflóa og Breiðafjörð sem og á Ströndum og Norðurlandi vestra. Vegna þess má gera ráð fyrir erfiðum akstursskilyrðum.
Á Miðhálendinu er spáð suðvestan stormi 20 til 28 metrum á sekúndu með talsverðri ofankomu í formi snjókomu og síðar éljum. Gera má ráð fyrir lélegu skyggni.
Gul viðvörun fellur úr gildi við Breiðafjörð klukkan 16 og klukkan 22 á miðhálendinu. Á Suðurlandi, við Faxaflóa og á Ströndum og Norðurlandi vestra falla gular viðvaranir úr gildi á miðnætti í kvöld.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að eftir útsynning gærdagsins þá nálgist hlýtt loft landið úr suðri og framan af degi verði allhvöss sunnanátt með slyddu eða snjókomu, en rigningu sunnan til.
Eftir hádegi gangi þó aftur í suðvestan 15-23 metra á sekúndu með éljum og þá kólni heldur aftur.
Í nótt létti síðan til austan til. Annað kvöld dragi heldur úr vindi en á sunnudaginn sé aftur von á hlýju lofti með sunnanátt og slyddu eða snjókomu. Það verði því umhleypingasamt næstu daga.