Óeining um orku í Samfylkingu

mbl.is/Sigurður Bogi

Ljóst er að ekki ríkir einhugur innan þingflokks Samfylkingarinnar um stefnu í orkumálum, þvert á það sem Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður flokksins sagði í Morgunblaðinu á miðvikudag.

Þannig segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, flokkssystir Jóhanns Páls og fyrrverandi umhverfisráðherra, um ummæli hans í blaðinu að „þetta sé frjálsleg túlkun á stefnu Samfylkingarinnar“, en vill ekki upplýsa um samtöl innan þingflokksins hvað þetta varðar.

Talar fyrir stefnu Samfylkingarinnar

„Hann fer fram og lýsir sínum skoðunum. Ég byggi mína afstöðu á stefnu Samfylkingarinnar,“ segir Þórunn.

- Ríkir þá ekki einhugur í þingflokknum um stefnuna í orkumálum?

„Nei, kannski ekki, en hann verður þá að svara því. Mitt haldreipi er stefna Samfylkingarinnar og ég tala fyrir henni, hvort sem er innan þingflokks eða utan,“ segir Þórunn.

Telur einhug um stefnuna í flokknum

Hún segist samt telja að einhugur ríki í þingflokknum um stefnu Samfylkingarinnar í orkumálum sem hún segir skýra. Í rammaáætlun séu settar leikreglurnar sem gildi í málaflokknum.

„Tafirnar sem reglulega er býsnast yfir eru á ábyrgð þeirra flokka sem nú virðast hafa mestar áhyggjur af orkuöflun í landinu,“ segir Þórunn og vísar þar til Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Tekur undir með innviðaráðherra

Hún segist taka undir með innviðaráðherra varðandi Hvammsvirkjun sem sé í ferli sem fari að ljúka. „Tafirnar sem þar urðu voru vissulega óheppilegar, en ég er ekki viss um að þær krefjist þess að Alþingi grípi inn í á þessari stundu. Þau sem hrópa hæst á flýtiframkvæmdir verða að svara þeirri spurningu hvernig eigi að flýta framkvæmdum, hvar á að minnka kröfur um leikreglur sem um þetta gilda?“ segir hún.

Þórunn bendir á tvær leiðir til að tryggja raforkuöryggi á Íslandi. Önnur væri að séð yrði til þess að flutningskerfið virkaði um land allt og hin að fjármagna opinberar stofnanir þannig að þær gætu flýtt afgreiðslu mála án þess að slegið væri af kröfum. Núverandi staða í orkumálum sé á ábyrgð þeirra flokka sem hafa verið við stjórnvölinn síðastliðin tíu ár.

Lesa má meira um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert