Öllu starfsfólki Menntamálastofnunar, 46 manns, var sagt upp í dag. Þetta staðfestir Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri stofnunarinnar í samtali við mbl.is.
Menntamálastofnun hefur ekki náð að sinna stuðningi við skólasamfélagið, eins og þekkist í sambærilegum stofnunum í þeim löndum sem Ísland er gjarnan borið saman við, að sögn Þórdísar Jónu.
Til stendur að stofna nýja þjónustustofnun sem á að taka við af Menntamálastofnun á næsta ári. Hún á meðal annars að sinna stuðningi við kennara, skólastjórnendur og sveitarfélögin.
40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi, að því er kom fram í niðurstöðum PISA-könnunarinnar 2022 sem voru birtar 5. desember.
Hlutfall nemenda sem nær þessari grunnhæfni (um 60%) lækkaði um 14 prósentustig hér á landi frá síðustu könnun. Til samanburðar hefur prósentustigið á hinum Norðurlöndunum lækkað um þrjú til átta prósentustig.
Þessu hefur verið mætt með mikilli gagnrýni víða, þar á meðal á skólayfirvöld, menntamálaráðuneyti og Menntamálastofnun.
Vonast er til þess að ný Menntamálastofnun verði öflugri en fyrri stofnun til þess að sporna við þessari þróun.