Tjáir sig ekki um fatafellumálið í Póllandi

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Óttar

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að málefni lögreglukvennanna sem keyptu þjón­ustu fata­fellu í fræðslu­ferð til Pól­lands í síðasta mánuði sé á borði Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra í Reykjavík.

Greint var frá því á dögunum að þrjár starfskonur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefðu pantað þjónustu karlkyns fatafellu í fræðsluferð lögreglumanna og saksóknara við lögregluembætti til Auschwitz í Póllandi í nóvember og komið samferðafólki sínu að óvörum með tiltækinu. Starfsfólkið sótti þar námskeiðið „Hatursglæpir - uppgangur öfgaafla.“

„Ég vil ekki tjá mig um svona einstök mál hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Málið er á hennar borði og ég vænti þess að það séu þar verkferlar til að grípa svona tilfelli sem koma upp,“ segir Guðrún við mbl.is.

Guðrún segist ekki hafa kynnt sér málavöxtu né rætt við lögreglustjórann um þetta mál.

„Í þeim starfseiningum sem ég hef starfað í gegnum tíðina þá eru viðbragsáætlanir við kynferðislegu áreitni, við einelti, slysum og öðru og ég vænti þess það séu viðhlítandi áætlanir sem eru virkjaðar þegar svona mál koma upp hjá embættinu svo og öðrum embættum,“ segir Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert