Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, reksturs og þjónustu Bláa lónsins, segist hlakka mikið til þess að opna að nýju á sunnudaginn.
Hún segist hafa heyrt bæði frá flugfélögunum og úr ferðaþjónustunni að dæmi séu um að fólk hafi hætt við Íslandsför sína þar sem Bláa lónið væri lokað. Það kemur Helgu ekki á óvart í ljósi þess að nær helmingur allra ferðamanna sem koma til landsins heimsækir lónið.
Opnun Bláa lónsins á sunnudaginn verður háð ákveðnum takmörkunum. Starfsfólk má vera á staðnum frá sjö á morgnanna til klukkan níu á kvöldin. Bláa lónið er svo opið gestum á milli ellefu að morgni til átta að kvöldi.
„Heimildin sem við fáum miðast við þann tíma sem önnur starfsemi og íbúar í Grindavík fara eftir. Samkvæmt þessari áætlun gefst okkur líka tími til að ganga frá eftir daginn og þrífa og undirbúa opnun að morgni.“
Einungis verður hægt að heimsækja Bláa lónið í hópbílum fyrstu fjóra dagana. Helga segir að unnið sé í því að koma þeim upplýsingum áleiðis til gesta.
Þar sem enn er verið að vinna að gerð varnargarða með stórvirkum vinnuvélum á staðnum munu gestir koma í hópbílunum að Bláa lóninu við Silica Hotel. Það sé gert til að koma í veg fyrir truflun á vinnusvæði varnargarðanna.
Helga segir starfsfólk Bláa lónsins hafa notað gærdaginn í umfangsmikla öryggisæfingu. Stór hluti starfsmanna tók þátt í æfingunni og tókst hún mjög vel. Lék sumt starfsfólk gesti í lóninu og snerist æfingin um að rýma svæðið á sem skemmstum tíma.
Hótel Bláa lónsins eru enn lokuð og verður sú ákvörðun skoðuð aftur 21. desember. „Þar vinnum við náið með yfirvöldum og ávallt með öryggi gesta og starfsfólks að leiðarljósi.“
Hún segir bókunarstöðuna hjá Bláa lóninu ágæta, þótt þau séu vissulega vanari betri stöðu á þessum árstíma. „Við hlökkum því mikið til að geta tekið á móti gestum að nýju.“