Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hyggst kolefnisjafna ferð fulltrúa Íslands á loftslagsráðstefnuna í Dúbaí. Rúmlega 80 fulltrúar Íslands sóttu ráðstefnuna sem réttu nafni heitir aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP 28).
Við það tilefni staðfesti Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þátttöku Íslands í alþjóðlegu kolefnisáskoruninni. Fram kemur á vef ráðuneytisins að um sé að ræða alþjóðlegt átaksverkefni sem miðar að því að hraða upptöku tækni sem byggist á föngun, förgun og hagnýtingu kolefnis.
Af því tilefni spurðist Morgunblaðið fyrir um hvort ferð fulltrúa Íslands til Dúbaí hefði verið kolefnisjöfnuð.
„Öll losun Stjórnarráðsins er kolefnisjöfnuð og losun vegna flugferða tvöfalt, í samræmi við loftslagsstefnu Stjórnarráðsins. Alla jafna er gengið frá kolefnisjöfnuninni þegar losunarbókhald ráðuneytanna fyrir árið er tilbúið, sem er á vormánuðum. Þannig að gengið er út frá því að ferðir vegna COP28 verði kolefnisjafnaðar vorið 2024,“ sagði í svari ráðuneytisins.
Jafnframt var spurt hvernig kolefnisjöfnunin færi fram en af svari ráðuneytisins má skilja að það sé í vinnslu.
Með því að nýta kolefnisjöfnunarfjármagn ráðuneytanna innanlands hefur verið styrkt við aðra meginstoð stefnumörkunar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, sem er að ýta undir skógrækt og endurheimt votlendis innanlands,“ sagði meðal annars í svari ráðuneytisins.
Alþjóðaflugmálastofnunin, ICAO, er ein af undirstofnunum SÞ. Á vef hennar er boðið upp á reiknivél til að áætla kolefnislosun vegna flugferða. Flug 80 Íslendinga frá London til Dúbaí þýðir losun upp á 54 tonn af koldíoxíði. Við það bætast um 20 tonn vegna flugs frá Keflavík til London. Þetta magn, 73,9 tonn, kallar á 11 hektara af stafafurumeðalskógi, að því er sérfræðingur reiknaði út fyrir blaðið.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.