„Var ekki vanþörf á að þrífa mig“

Einar Skúlason mættur í höfuðstað Norðurlands, sigri hrósandi eftir ellefu …
Einar Skúlason mættur í höfuðstað Norðurlands, sigri hrósandi eftir ellefu daga og 280 kílómetra á fjöllum við ýmsar aðstæður og hitastig. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er að ganga um Akureyrarbæ núna að bera út bréf,“ segir Einar Skúlason, göngugarpur og mikill áhugamaður um gamlar íslenskar þjóðleiðir, en hann hefur þar með lokið ellefu daga langri göngu sinni sem hófst á Seyðisfirði 4. desember og lá um gömlu póstleiðina þaðan til Akureyrar en meðan á göngunni stóð safnaði Einar fé til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis segir stoltur frá því í viðtali við mbl.is að yfir ein milljón króna hafi safnast meðan á þrekvirkinu stóð.

„Ég var með einhver rúmlega tuttugu bréf í bakpokanum og þetta gekk bara vel. Veðrið var til friðs og líkaminn leyfði þetta, maður veit aldrei hvernig er með hann sko,“ segir Einar af skrokknum sem stóðst raunina enda er hann vanur göngumaður og á meðal annars að baki göngu frá Hornafirði til Borgarfjarðar eystri og Reykjavík til Ísafjarðar.

Hafsjór af fróðleik um gamlar þjóðleiðir

Alls gekk Einar 280 kílómetra en hefur þó enn ekki reiknað uppsafnaða hækkun á leiðinni en heiðarnar sem leið hans lá yfir voru þó nokkrar. „Ég stoppaði á nokkrum stöðum á leiðinni eins og landpóstarnir gerðu í gamla daga, eins og á Möðrudal og Grímsstöðum á Fjöllum, og fékk gistingu og mat eins og þeir á þeirra tímum,“ segir Einar frá.

Hver vegur að heiman er vegurinn heim sem auðvitað hlýtur …
Hver vegur að heiman er vegurinn heim sem auðvitað hlýtur að vera nokkuð nærri lagi á þjóðvegi eitt, hringveginum um Ísland. Ljósmynd/Aðsend

Hann er hafsjór af fróðleik um gömlu þjóðleiðirnar og segir póstleiðina milli Seyðisfjarðar og Akureyrar hafa verið nýtta í 40 til 50 ár, þá var það bara eigin póstleið af því að allir póstflutningar fóru fram á landi, frá Reykjavík til Akureyrar, frá Akureyri til Seyðisfjarðar og svo öfugt. Ég var að fara þessa gömlu leið og svo safnaði ég áheitum fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis í leiðinni,“ segir Einar í svo hversdagslegum tón að blaðamaður fær á tilfinninguna að tæplega 300 kílómetra göngur með áheitasöfnun séu honum daglegt brauð.

Virkaði söfnunin þannig að fólk og fyrirtæki gátu keypt bréf eða jólakort hjá honum sem hann bar svo heim í hús til viðtakenda. Kostaði hvert kort 15.000 krónur fyrir einstaklinga og 50.000 fyrir fyrirtæki en einnig greinir Einar frá frjálsum framlögum sem hafi reynst drjúg og staðið undir meirihluta þeirrar upphæðar sem safnaðist.

Minnst farið á sumrin

Aðspurður kveðst Einar vera að sunnan en þó rekja ættir sínar að einhverju leyti norður um land. Þær gönguferðir sem nefndar eru framar í viðtalinu, Reykjavík til Ísafjarðar og Hornafjörður til Borgarfjarðar eystri, voru farnar fyrr á árinu, að hausti og október til nóvember, þó ekki nú í ár, „ég er að upplifa að fara á mismunandi árstíma af því að fólk fór á öllum árstímum í gamla daga, af því að það þurfti að fara, og þá var eiginlega minnst farið á sumrin af því að þá var fólk að vinna. Ég vildi komast nær hugarheimi þeirra sem voru áður og finna þetta á eigin skinni,“ segir hann ákveðinn.

Einar vissi ekkert um hvort hann kæmist til Akureyrar fyrir …
Einar vissi ekkert um hvort hann kæmist til Akureyrar fyrir jól en lét skeika að sköpuðu. Ljósmynd/Aðsend

Oftast gisti hann í tjaldi en fékk einnig að gista á nokkrum stöðum. Byggðin sé hins vegar gisnari nú en í gamla daga og því um færri gististaði að ræða utan þéttbýlissvæða. Hann gekk með allt á bakinu, hátt í 30 kílógramma byrði af búnaði, og játar að það hafi ekki alltaf verið dans á rósum.

„Svo ég bara hringdi þangað“

„Svo vissi ég ekkert hvort ég kæmist hingað fyrir jól, ég vissi ekki hvort það kæmu einhverjar lægðir, hvernig veðrið yrði og hvort eitthvað kæmi fyrir mig á leiðinni, þetta er svolítil óvissa alltaf að vera með svona þungan poka á bakinu,“ segir göngugarpurinn.

Upphaflega hefði hann bara ætlað sér að ganga gömlu póstleiðina og ræddi það við bróður sinn sem stakk þá upp á að hann notaði ferðina til að safna fé fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis. „Félagið vinnur frábært starf. Svo ég bara hringdi þangað og spurði hvort ég ætti ekki að reyna að safna fyrir þau. Þar er verið að reyna að kynna félagið og eins að lækka þröskuldinn fyrir þá sem leita eftir þjónustu, sumir eru eitthvað feimnir við það þannig að þeim [hjá félaginu] þykir mjög vænt um þessa kynningu,“ segir Einar frá.

Spurður út í mataræði og aðföng matar á leiðinni svarar hann því til að hann hafi verið búinn að koma birgðapökkum fyrir á sex stöðum á leiðinni áður en hann hóf göngu, einkum þurrmat og hrökkbrauði. „En svo voru svo margir sem vildu bjóða mér að borða og bjóða mér að gista á leiðinni svo meira en helmingurinn af matnum er eftir, ég var með allt of mikið,“ segir Einar og hlær.

Boðið í böðin

Eins hafi honum verið boðið í böðin á leiðinni, hjá Vök á Austurlandi, Jarðböðunum á Mývatni og Skógarböðunum á Akureyri. „Enda var ekki vanþörf á að þrífa mig aðeins,“ segir Einar og skellihlær en eins hafi verið gott að mýkja stirða vöðva eftir gönguna, lengsta dagleið hans var 35 kílómetrar en sú stysta fjórtán.

Við aftanskæru á fjöllum og kannski margur óhreinn andi á …
Við aftanskæru á fjöllum og kannski margur óhreinn andi á reiki eins og segir í mögnuðu kvæði Gríms Thomsens með Sprengisand sem sögusvið. Ljósmynd/Aðsend

Hann kveðst því eðlilega ánægður með að hafa komist til Akureyrar með sjálfan sig í heilu lagi og jólapóstinn vel fyrir jól en fjölda mynda frá gönguferð Einars má skoða á Facebook-síðunni „Póstleiðin Seyðisfjörður – Akureyri á aðventu 2023“.

„Og það var fimbulkuldi á leiðinni, lengst af tveggja stafa tala í frosti, ég var stundum í 15 til 20 stiga frosti en í fyrradag var 17 stiga frost um morguninn við Mývatn en svo allt í einu á miðnætti var bara núll,“ segir Einar Skúlason af þrekvirki sem skilaði Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis krónutölu sem þó var allt annað en núll, rúmlega einni milljón króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert