„Á endanum er brotið á þeim“

Drífa Snædal er talskona Stígamóta. Samtökin berjast gegn kynferðisofbeldi og …
Drífa Snædal er talskona Stígamóta. Samtökin berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi. Ljósmynd/Aðsend

Drífa Snædal, talskona Stígamóta, segir samtökin telja samræði við barn yngra en fimmtán ára vera nauðgun. Mikið valdaójafnvægi sé á milli fullorðins einstaklings og barns á þessum aldri. Því geti barn ekki veitt samþykki fyrir samræði með fullorðnum einstaklingi.

Eins og Morgunblaðið fjallaði um hafa nýlega fallið tveir dómar þar sem fullorðnir karlmenn höfðu samræði við stúlkur undir fimmtán ára aldri en þeir voru sýknaðir af ákæru um nauðgun.

Þeir voru þó sakfelldir fyrir að hafa haft samræði við barn undir fimmtán ára aldri, sem ákvæði hegningarlaga leggur algjört bann við.

Drífa telur stúlkurnar hafa verið vélaðar inn í aðstæður sem þær ráði ekki við. Því sé um nauðgun og tælingu að ræða.

„Það sem gerist er að veruleikaskyn þeirra raskaðast og þær eru vélaðar af þroskaðri og eldri einstaklingi inn í aðstæður sem þær ráða ekki við. Á endanum er brotið á þeim,“ segir Drífa.

Leita leiða til að axla ábyrgð

Í einum dómnum kemur fram að brotaþoli hafi sent skilaboð á vinkonur sínar þar sem hún hafi greint þeim frá því að hún hafi misst meydóminn. Dómurinn vísar til þessara gagna í rökstuðningi sínum fyrir því að fallast ekki á að beita 194. gr. 

Að mati Kolbrúnu Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara er óæskilegt að leggja áherslu á skilaboð sem þessi við ákvörðun um hvort eigi að sýkna eða sakfella. Spurð hvort Stígamót séu sammála Kolbrúnu um þetta atriði segir Drífa: „Þær eru í stöðu sem er búið að véla þær inn í, og komast ekki út úr, og þær eru að leita leiða til að axla ábyrgð sjálfar. Það er eitthvað sem við höfum margoft séð.“

Í báðum dómsmálum áttu stúlkurnar samskipti við gerendurnar á samfélagsmiðlinum Snapchat. Drífa segir þekkt að ofbeldismenn nýti sér miðilinn til að komast í samskipti við ungar stúlkur. „Við vitum að það er ofboðslegt áreiti á ungar stúlkur á Snapchat.“

„Mig langar ekki að gera þetta. Verð ég að gera þetta?“

Stígamót taka ekki á móti brotaþolum yngri en 18 ára. Þó standa samstökin að nafnlausu spjalli sem nefnist Sjúktspjall. Það er opið öllum en er miðað að ungmennum á aldrinum 13-21 árs.

„Þar sjáum við mjög mikið hvað er búið að vera rugla í ungu fólki um hvað séu mörk og samþykki. Við fáum iðulega spurningar eins og: „Mig langar ekki að gera þetta. Verð ég að gera þetta?“,“ segir Drífa og bætir við:

„Ég held að almennt séu ungar stúlkur mjög útsettar, og jafnvel útsettari í dag með öllu aðgenginu að þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka