Sú breytingartillaga við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld og fleira, hluti svokallaðs bandorms, var samþykkt á Alþingi í gær að eftirgjöf af vöxtum og verðbótum Grindvíkinga vegna náttúruhamfara þar teljist ekki til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda árin 2024 og 2025.
Samþykktu 42 þingmenn breytingartillöguna, þrettán greiddu ekki atkvæði en átta voru fjarstaddir.
Var breytingartillagan svohljóðandi:
Vegna náttúruhamfara í Grindavík telst sérstök eftirgjöf af vöxtum og verðbótum af skuldum manna utan atvinnurekstrar, vegna nóvember og desember 2023 og janúar 2024, af lánum sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þ.m.t. kaup á búseturétti samkvæmt lögum nr. 66/2003, og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt eldri lögum, ekki til skattskyldra tekna við álagningu opinberra gjalda á árunum 2024 og 2025. Skilyrði er að um sé að ræða vexti og verðbætur vegna áhvílandi lána á íbúðarhúsnæði. Ákvæðið gildir um eftirgjöf sem reiknast af allt að 50 millj. kr. lánsfjárhæð hjá einstaklingi, hjónum eða samsköttuðum einstaklingum og hlutfallslega sé lánsfjárhæð hærri. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd eftirgjafarinnar á grundvelli þessa ákvæðis.