Farþegi leigubíls kýldi lögreglumann

Leigubílstjóri óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna farþega sem neitaði að …
Leigubílstjóri óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna farþega sem neitaði að greiða fyrir farið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt en meðal annars var tilkynnt um slagsmál fyrir utan skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur.

Um var að ræða tvo brotaþola en gerandi var farinn af vettvangi er lögreglu bar að garði.

Þá óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglu vegna farþega sem neitaði að greiða fyrir farið. Farþeginn kýldi og sparkaði í lögreglumann og var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Einnig var tilkynnt um að einstaklingur hefði sparkað í hliðarspegil leigubíls. Hann sá eftir gjörðum sínum og bauðst til þess að greiða fyrir tjónið, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Brennt smjör á steikingarpönnu

Tilkynnt var um eld í íbúð í Reykjavík. Þegar lögregla kom á vettvang voru slökkviliðsmenn komnir og byrjaðir að reykræsta. Engar skemmdir voru sjáanlegar en sjá mátti brennt smjör á steikingarpönnu.

Þá var nokkuð um umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu og urðu lögreglumenn vitni að því að ökumaður ók á skilti. Í ljós kom að hann var ölvaður og án ökuréttinda. Var hann fluttur á lögreglustöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka