Funda ekki nema verkfalli verði aflýst

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök atvinnulífsins munu ekki mæta á fund ríkissáttasemjara með flugumferðarstjórum nema þeir falli frá vinnustöðvun á mánudag og miðvikudag í næstu viku. 

„Við erum auðvitað reiðubúin til að funda við viðsemjendur okkar hjá ríkissáttasemjara, að því skilyrði uppfylltu að flugumferðarstjórar aflýsi boðuðum verkföllum í næstu viku,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Ríkissáttasemjari hafi engin völd

Spurð hvort hún vonist eftir því að stjórnvöld setji lögbann á verkfallið segir hún engan annan bæran til þess að hafa afskipti af deilunum.

„Staðreyndin er sú að ríkissáttasemjari hefur í rauninni ekki heimild til að íhlutast í þessar deilur með afgerandi hætti. Við höfum bent á að á hinum Norðurlöndunum hafa ríkissáttasemjarar víðtækari heimildir,“ segir hún. Eðlilegt sé að ríkissáttasemjari sjái til þess að launastefnu stefnumótandi kjarasamninga sé fylgt í öðrum kjarasamningum.

Kröfurnar umfram launastefnu

„Þegar maður er að vinna að svona verkefni veldur það miklum vonbrigðum að ein tiltekin stétt geti farið fram með kröfur sem eru umfram þá launastefnu sem hefur verið mörkuð og þess vegna er svo mikilvægt að leysa úr þessari deilu.“

Samtök atvinnulífsins hafa bent á að aðgerðirnar hafi í för með sér beint og afleitt tjón sem gæti hlaupið á milljörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert