Heill verkfallsdagur nemi 1,5 milljarða tjóni

Samtök atvinnulífsins vekja athygli á tjóni sem verður þegar ferðamenn …
Samtök atvinnulífsins vekja athygli á tjóni sem verður þegar ferðamenn hætta að streyma til landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Beinn kostnaður hagkerfisins af algerri stöðvun flugsamgangna í einn dag gæti numið um 1,5 milljörðum króna. Beint tjón ferðaþjónustunnar nemur þar af einum milljarði hið minnsta.

Þetta kemur fram í tilkynningu Samtaka atvinnulífsins, sem vekja athygli á tjóni sem stöðvun flugumferðar getur haft í för með sér. Vinnustöðvun flugumferðarstjóra hefur verið boðuð að nýju á mánudaginn og miðvikudaginn. Nemur vinnustöðvunin sex klukkutímum í senn, eða frá klukkan 04 til 10.

„Verulegt tjón hlýst af þessum aðgerðum, sem leggst fyrst og fremst á ferðaþjónustuna, en aðgerðirnar hafa einnig áhrif á útflutning sjávarafurða sem og önnur afleidd áhrif víða um hagkerfið,“ segir í tilkynningunni. 

Leggja niður störf í sex tíma

Á mánudaginn leggja flugumferðarstjórar niður störf í sex tíma, líkt og gert var á þriðjudag og fimmtudag.

Mánudagurinn er þriðji verkfallsdagurinn af fjórum, sem hafa verið boðaðir í þessum mánuði en flugumferðarstjórar beita verkfallsaðgerðum nú í þriðja skiptið á fimm ára tímabili.

„Að auki nemur útflutningur fersks fisks með flugi um 100 milljónum króna á dag sem hliðra þyrfti til með tilheyrandi kostnaði. Þá er ekki tekið tillit til óbeinna áhrifa á aðrar atvinnugreinar, sem geta verið veruleg, þó þau séu illmælanlegri.“

Afleitt tjón nemi um 1,2 milljörðum króna

„Einnig er mikilvægt að líta til þess að öfugt við flest önnur nágrannaríki er flug til og frá landinu eina tenging bæði fyrirtækja og heimila við útlönd. Af því leiðir að tjón vegna stöðvunar flugsamgangna er umtalsvert meira en mælist í hagtölum.“

Sé miðað við neyslu erlendra ferðamanna nemi afleitt tjón um 1,2 milljörðum króna í tekjur vegna minni neyslu ferðamanna fyrir hvern dag sem ekki er flogið til landsins. 

Áhrifanna verði þá ekki aðeins vart hjá fyrirtækjum, heldur einnig ríkissjóði, þar sem skýrsla um skattspor ferðaþjónustu áætlar að skattspor greinarinnar verði ríflega 90 milljarðar króna á þessu ári, eða sem samsvarar ríflega 250 milljónum króna á dag.

„Það er því ljóst að ríkissjóður mun ekki fara varhluta af þessum aðgerðum,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert