Maður spyr sig stundum hvað ef

Jón Snæbjörnsson var yfirstýrimaður á Suðurlandinu þegar það sökk árið …
Jón Snæbjörnsson var yfirstýrimaður á Suðurlandinu þegar það sökk árið 1986. Sex manns létust en fimm lifðu. mbl.is/Ásdís

Stutt er í grínið hjá Jóni Snæbjörnssyni sem opnar dyrnar alvarlegur í bragði og kannast ekki við að neinn Jón búi þar. Blaðamaður telur um stund að hann hafi farið húsavillt en þá breiðist prakkarabros yfir andlit Jóns og hann býður í bæinn. Við erum þó alls ekki að fara að ræða neitt sem hægt er að grínast með; síður en svo. Jón er eftirlifandi sjóslyss en því miður létust sex menn þegar Suðurlandið hvarf í hafið árið 1986. Áfallið hefur setið í Jóni í öll þessi ár en hann er nýlega farinn að takast á við andlegar afleiðingar slyssins.

Sáum ljós ekki langt undan

Jón var 29 ára gamall árið 1986, eiginmaður, þriggja barna faðir og yfirstýrimaður á flutningaskipinu Suðurlandi. Þessi jól gat hann ekki verið heima í faðmi fjölskyldunnar því siglt skyldi til Múrmansk með síld.

„Við lögðum af stað frá landi á Þorláksmessu og á aðfangadagskvöld hefst atburðarásin. Við fengum högg á skipið og fljótlega kemur slagsíða,“ segir Jón sem segist viss um að orsök slyssins megi rekja til kafbáts sem var undir skipinu.

„Allt gerist mjög hratt og þetta var skelfilegur tími. Við vorum ellefu um borð og allir koma upp í brú þegar þeir finna höggið. Einhverju áður hafði ég sett dýptarmælinn á og fannst eins og eitthvað væri öðruvísi; eins og það væri grunnt niður á eitthvað. En það átti ekki að geta verið neitt,“ segir Jón og segir algengt í hernaði að kafbátar noti stór skip til að skýla sér undir.

„Ég var í terlínbuxum, spariskóm, skyrtu og jakka,“ segir Jón og útskýrir að þeir hafi verið í fínum fötum, enda aðfangadagskvöld.

„Á þessum tíma voru engir björgunargallar komnir um borð í íslensk flutningaskip. Það þurfti þetta slys til. Ári áður eða 1985 voru þeir lögbundnir um borð í fiskiskipum, en ekki um borð í farskipum. Ef við hefðum haft galla hefði þetta farið öðruvísi, þótt ég geti ekki alhæft um það.“

Játaði mig sigraðan í sjómennsku

Situr þessi harmleikur ekki í þér alla ævi?

„Jú, jú. Þetta fer ekki neitt. Kannski það versta var að um tveimur árum eftir slysið var ég kallaður morðingi. Það fannst mér alveg ömurlegt. Það situr enn í mér, þótt ég viti að það er ekki rétt. Ég lagði mig allan fram að gera allt sem ég gat,“ segir Jón en hann hætti á sjó fljótlega eftir slysið.

Jón segir að fyrir um ári hafi hann fundið að hann þyrfti að fara að vinna í sér andlega, þótt liðin væru um 36 ár frá slysinu. Hann hætti að vinna og ákvað að leita sér hjálpar og valdi að fara í Hveragerði á Heilsustofnunina nú í janúar. Í bók Svövu, Heimtir úr helju, er áhersla lögð á líðanina eftir slysið. 

Í bók Svövu Jónsdóttur er rætt við tólf menn sem …
Í bók Svövu Jónsdóttur er rætt við tólf menn sem lifðu af ógnvænleg sjóslys. Jón er einn af þeim.

„Það var búið að greina mig fyrir einhverju síðan með áfallastreituröskun. Ég hafði ekki getað grátið og hafði harkað af mér, sem er ekki gott,“ segir hann og segir dvölina í Hveragerði hafa breytt miklu.

„Það er aldrei of seint að byrja að vinna í sér. Ég var þarna einn í mánuð. Ég fékk enga heimsókn og fór heldur ekki neitt; ég þurfti virkilega að vinna í mér og vera innan um fólk sem var að glíma við alls konar, og með þessu góða fagfólki. Þetta var bara æðislegt og ég væri til í að fara aftur,“ segir Jón og segir alltaf skugga fylgja sér eftir slysið.

„Maður spyr sig stundum hvað ef.“

Ítarlegt viðtal er við Jón í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka