Play hliðrar flugi til vegna verkfallsins

Verkföllin eru skipulögð á háannatíma. PLAY hefur því breytt ferðaáætlun …
Verkföllin eru skipulögð á háannatíma. PLAY hefur því breytt ferðaáætlun sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfélagið Play þarf að gera tímabundnar breytingar á tengileiðakerfi sínu á meðan verkfallshrinu flugumferðarstjóra stendur í næstu viku. Því eru farþegar hvattir til að fylgjast vel með þeim breytingum sem gætu orðið á flugferðum þeirra.

Flugumferðarstjórar leggja niður störf í sex tíma í senn á mánudag og miðvikudag, frá klukkan 04 til 10. Langflestar komur og brottfarir Play eru á þeim tíma sem aðgerðir flugumferðarstjóra standa yfir.

Mun Play því seinka komum á Norður-Ameríkuflugi félagsins til Íslands um sex tíma á mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Munu brottfarir til borgaráfangastaða Play í Evrópu sem tengjast við Ameríkuflugin seinka um sex tíma einnig.

Sex tíma seinkun

Farþegar sem eiga bókaða ferð með flugfélaginu á fimmtudag gætu orðið fyrir minniháttar röskunum meðan leiðakerfið er rétt aftur við. 

Gengið er út frá að eftirmiðdegis brottfarir til sólarlandaáfangastaða í leiðakerfi Play muni vera á áætlun, en farþegum er bent á að hafa í huga að minniháttar seinkanir gætu orðið á brottförum á þeim ferðum sökum þeirra áhrifa sem verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra munu hafa í næstu viku.

Telur aðgerðirnar ósanngjarnar

Flugfélagið vinnur nú að því að koma skilaboðum á farþega sína vegna þessara breytinga og munu þau berast í dag og á morgun.

Haft er eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play, í tilkynningu félagsins að ferðalangar sitji eftir með sárt ennið vegna alls kyns kostnaðar sem falli á þá vegna aðgerðanna sem verði að teljast ósanngjarnt.

„Við teljum að með þessum breytingum á leiðarkerfi okkar náum við að lágmarka þann fjárhagslega skaða sem Play verður fyrir vegna þessara aðgerða og það sem meiru máli skiptir, að farþegar Play komist allir á áfangastaði sína fyrir jólin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert