Segist bera traust til Orkumálastjóra

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, sætir harðri gagnrýni frá Samtökum iðnaðarins …
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, sætir harðri gagnrýni frá Samtökum iðnaðarins í nýlegri umsögn um fyrirhugaðar breytingar á raforkulögum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra, segist bera traust til Orkumálastjóra en hörð gagnrýni hefur komið fram á embættismanninn, m.a. í umsögnum við frumvarp sem tryggja mun stjórnvöldum auknar valdheimildir til þess að ráðstafa raforkusölu með öðrum hætti en sölufyrirtæki og framleiðendur raforku hafa gert samninga um.

Guðlaugur Þór Þórðarson sat fyrir svörum í Spursmálum síðdegis í …
Guðlaugur Þór Þórðarson sat fyrir svörum í Spursmálum síðdegis í gær. mbl.isBrynjólfur Löve

Heimildir Morgunblaðsins eru að það sé mikil kergja í garð orkumálastjóra, bæði innan orkufyrirtækjanna en einnig hagsmunasamtaka á borð við Samtök iðnaðarins (SI) vegna framgöngu hans. Telja viðmælendur blaðsins að embættismaðurinn hafi gengið of langt í yfirlýsingum sem varða raforkumarkaðinn. Þetta sést glögglega á umsögn sem SI sendu inn við fyrrnefnt frumvarp. Þar eru tiltekin nokkur ummæli sem embættismaðurinn hefur látið falla og samtökin telja að leiða myndu til vanhæfis hans til þess að gegna þeim skyldum sem upprunaleg mynd frumvarpsins gerði ráð fyrir að lagðar yrðu á herðar hans.

Treystir öllum sínum embættismönnum

„Það er auðvitað bara þannig að maður treystir öllum sínum embættismönnum. Það er bara svoleiðis. En þessar umsagnir eru náttúrulega komnar fram og eru í umræðunni.“

Hafa þær engin áhrif á traust þitt til embættismannsins?

„Ég ætla svosem ekkert að tala um einstaka [truflaður af spyrjanda] aðalatriðið er auðvitað bara að það sé traust og trúverðugleiki í stjórnsýslunni. Það er mjög mikilvægt.“

Við höfum líka heimildir fyrir því t.d. úr þessari frægu ferð til Argentínu þar sem Orkumálastjóri gerir, að því er virðist, milliríkjasamning milli orkustofnana í Suður-Ameríku og hér heima. Við höfum heimildir fyrir því að þið hafið ekki verið upplýst um þessa samningagerð áður en að til hennar kom.

„Já ég ætla ekki að fara í svona einstaka þætti hvað svona varðar. En ef við erum ósátt við eitthvað þá komum við því áleiðis til viðkomandi embættismanns eða stofnunar.“

Viðtalið við Guðlaug Þór má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan

Viðtalið er einnig aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum og einnig á Youtube.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert