„Það verða svo sannarlega gleðileg jól“

Laufey Sif Lárusdóttir, formaður samtaka Íslenskra Handverksbrugghúsa, segir breytinguna jákvæða.
Laufey Sif Lárusdóttir, formaður samtaka Íslenskra Handverksbrugghúsa, segir breytinguna jákvæða. Samsett mynd

„Það verða svo sannarlega gleðileg jól hjá brugghúsum landsins þessi jólin,“ segir Laufey Sif Lárusdóttir, formaður samtaka Íslenskra Handverksbrugghúsa, í samtali við mbl.is í kjölfar breytinga á bandorminum svokallaða, þ.e. breytingar á nokkrum lögum á tekjuhlið fjárlaga, sem gerir það að verkum að sjálf­stæð smærri brugg­hús geta fengið helm­ings af­slátt af áfeng­is­gjaldi.

„Þetta tryggir auðvitað rekstrargrundvöll þessara smáframleiðanda og gerir það að verkum að þau geta haldið áfram sinni nýsköpun, vöruþróun og styrkt stoðir rekstursins enn frekar,“ segir Laufey.

Hún segir að þetta muni tryggja blómlegri rekstur fyrirtækjanna og telur að þetta skapi svigrúm fyrir frekari atvinnusköpun. Á landinu eru 26 brugghús sem framleiða allt frá 1.000 lítra á ári og allt að 500.000 lítra á ári.

Mikilvæg breyting fyrir smábrugghús

Hún segir þessa breytingu vera í takt við það sem sjáist hjá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

„Þetta er jákvætt skref og gríðarlega mikilvægt fyrir þessi smáu fyrirtæki enda áfengisgjöld hér með þeim hærri í heiminum og þetta styrkir stoðir okkar reksturs, sem við viljum auðvitað halda í. Við viljum að hér sé blómlegur iðnaður og fjölbreytt íslensk framleiðsla á öli líkt og við viljum með aðrar vörur eins og í garðyrkjunni og landbúnaði. Við viljum íslenskt,“ segir hún.

Sam­kvæmt frum­varp­inu telst lít­ill fram­leiðandi vera sá sem fram­leiðir minna en 2,5 millj­ón­ir sentílítra af hrein­um vín­anda á ári. Þá má fram­leiðand­inn ekki vera í meiri­hluta­eigu ann­ars fram­leiðanda áfengra drykkja.

Aukinn áhugi almennings og ferðamanna

Laufey nefnir að breytingar á lögum á síðasta ári sem gerði almenningi kleift að kaupa vörur beint af brugghúsunum hafi haft jákvæð áhrif á rekstur brugghúsa.

„Við höfum fundið fyrir auknum áhuga íslensks almennings og ferðamanna á brugghúsum og erum þakklát fyrir það. Þessi breyting er bara frekari stuðningur við þennan iðnað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka