„Þau eru fyndin og skrítin“

Allur ágóði af sölunni rennur til Konukots.
Allur ágóði af sölunni rennur til Konukots. Ljósmynd/Margrét Erla Maack

Einstök, ljót og skrítin jólatré eru nú til sölu á pallinum fyrir framan veitingahúsið Kramber og mun allur ágóði renna til Konukots.

Lísa Kristjánsdóttir, eigandi staðarins, segir gesti og gangandi hafa mikinn áhuga á trjánum, sem sum eru með þrjá toppa og önnur enga. 

Fengu hugmyndina í fyrra

Hugmyndin að sölunni kom upp í fyrra. Kramber hafði þá nýlega verið opnað en ekki gafst tími til að framkvæma hugmyndina þá. 

„Okkur langaði til að gera eitthvað skemmtilegt í miðbænum, við seljum jólaglögg og langar að vera með í stemningunni.“

Höfðu eigendur Krambers samband við skógræktarmenn í ár til að fá tré sem eru felld við grisjun.

„Og við báðum þá um að kíkja sérstaklega eftir einstökum trjám. Við tókum nokkur jólatré í fóstur sem eru einstök og enginn annar vill og þau munu eflaust gleðja mörg miðbæjarheimili því þau eru fyndin og skrítin. Þau eru ekki góð endilega báðum megin, þau eru stundum ljót öðrum megin en góð hinum megin,“ segir Lísa.

„Ef fólk er að leita að einstöku jólatré, og þá meina ég einstöku með upphafsstöfum, þá er hægt að fá þau hjá okkur á pallinum fyrir litlar fimm þúsund krónur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert