Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort reisa eigi varnargarða í kringum Grindavík en búið sé að hanna þá og ákveða staðsetningu þeirra, verði þeir reistir.
„Ég lagði á það áherslu þegar landrisið hófst í kringum Svartsengi að við þyrftum að hraða því mjög að ná varnargarði utan um Svartsengi. Það var í algjörum forgangi enda hagsmunirnir þar gríðarlega miklir,“ segir Guðrún við mbl.is.
Guðrún segir að vinnan við varnargarðana við Svartsengi sé langt komin og að gengið hafi betur og hraðar í þeirri vinnu en áætlanir sögðu til um.
Verktakar hafa unnið á sólarhringsvöktum við uppsetningu varnargarðanna en í kringum hátíðarnar verður dregið úr hraðanum. Hún segir að tækin verði áfram á staðnum þótt vinnan liggi niðri yfir jólahátíðina en hægt verði að grípa hratt til ef á þurfi að halda.
„Það var hægt að nýta meira efni á staðnum og ryðja meiru upp. Ég er gríðarlega ánægð með hversu vel þetta hefur gengið og á hvaða stað við erum hvað þetta varðar. Hins vegar hefur það alltaf legið ljóst fyrir að ef upp kemur kvika við Hagafell þá er byggðin í Grindavík í mikilli hættu og eins ef það kæmi upp kvika vestan við Svartsengi eða við Eldvörp,“ segir Guðrún.
Hún segir að alltaf hafi legið fyrir að hægt væri að grípa til varnar þar og segir það allrar skoðunar virði núna að skoðað verði að koma upp varnargörðum eða leiðigörðum sem myndi beina hraunflæði frá byggðinni.
„Við erum að skoða þetta núna og við eigum það samtal við almannavarnir. Þessar framkvæmdir gætu hafist í byrjun ársins. Í þessum kröftum náttúrunnar verður manneskjan ógnarsmá og þá er þetta minnsta mögulega viðbragð sem við getum sýnt til þess að reyna að koma í veg fyrir tjón og hættu fyrir almenning. Þannig eiga líka almannavarnir að virka. Við eigum að vera í vörnum en ekki alltaf í viðbragði. Þarna erum við að bregðast hugsanlegri ógn,“ segir Guðrún.