Hermann Nökkvi Gunnarsson
Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF), segir í samtali við mbl.is að boltinn sé hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu flugumferðarstjóra við Isavia. Verkfallsaðgerðir munu að óbreyttu hefjast klukkan fjögur í fyrramálið.
Samtök atvinnulífsins (SA) hafa gefið það út að þau munu ekki mæta á fund ríkissáttasemjara með flugumferðarstjórum nema þeir falli frá verkfallsaðgerðum í komandi viku.
Inntur eftir viðbrögðum við þessari yfirlýsingu SA segir Arnar að FÍF muni mæta á fund ef hann verður boðaður. Ekki standi þó til að hætta við aðgerðirnar.
„Það er ekki búið að boða neinn fund og sá bolti er hjá sáttasemjara, og ef það verður boðað til fundar af hálfu sáttasemjara þá bara mætum við að sjálfsögðu. Að öðru leyti ætla ég ekkert að bregðast við yfirlýsingum SA og áróðursherferð þeirra,“ segir Arnar.
Hann segir að einhver símtöl hafi átt sér stað á milli hlutaðeigandi aðila um helgina en að annars sé staðan sú sama og á föstudag þegar fundur deiluaðila með sáttasemjara var afboðaður. Enn stendur til að fara í verkfallsaðgerðir á mánudag og miðvikudag.
„Það sem hefur verið boðað er núna á mánudag og miðvikudag og trúnaðarráð félagsins hittist á eftir. Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig neitt meira,“ segir hann og útskýrir að trúnaðarráð muni fara „almennt yfir stöðuna“ í kjaradeilunni.