„Ég trúi ekki öðru en að fólk sjái að sér“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í samtali við mbl.is að staðan sem upp er komin vegna kjaradeilu flugumferðarstjóra sé fáránleg í ljósi þess sem á undan hefur gengið. Aðilar þurfi að komast að samningum sem útflutningsgreinar hafi efni á, en ef svo gerist ekki þurfi stjórnvöld að stíga inn í deiluna.

„Annað hvort verður að semja á þeim nótum sem kerfið okkar þolir og það er alveg ljóst – eins og Seðlabankinn hefur talað um – að besta vopnið gegn verðbólgu og háum vöxtum er að það verði stöðugleiki á vinnumarkaði og samningar til lengri tíma sem eru þess eðlis að ekki síst útflutningsgreinarnar hafi efni á þeim. Þannig það er lykilatriði í þessu og ef aðilar eru ekki til í það þá þarf eitthvað annað.“

Að stjórnvöld stígi þá inn í leikinn?

„Já, að mínu mati,“ segir Bogi.

Auknar líkur á að fólk komist ekki á leiðarenda

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins hafa bent á að verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra hafi í för með sér beint og af­leitt tjón sem gæti hlaupið á millj­örðum. Bogi segir að beinn kostnaður vegna verkfallsaðgerða í síðustu viku sem og fyrirhugaðra verkfallsaðgerða á mánudag og miðvikudag gæti numið á bilinu 5-7 milljónum Bandaríkjadala fyrir fyrirtækið.

Flugumferðarstjórar hyggjast leggja niður störf á morgun og miðvikudag.

Bogi segir að tjónið sem muni skapast að óbreyttu í þessari viku verði meira en var í síðustu viku, þar sem um fleiri farþega sé að ræða og erfiðara að færa til flug. Líkur séu verulega að aukast á því að farþegar komist ekki á áfangastað fyrir jól vegna fyrirhugaðra aðgerða.

„Þar af leiðandi verður tjónið fyrir okkur og ferðaþjónustuna alltaf meira og meira og ekki síst fyrir okkar farþega, fólk sem er að reyna að komast til vina og ættingja og þess háttar,“ segir Bogi.

Ekki það sem ferðaþjónustan né farþegar eiga skilið

Ertu bjartsýnn á að það sé lausn í aðsigi?

„Ég bara trúi ekki öðru en að skynsemin ráði. Þessi staða sem er uppi núna er svo fáránleg í ljósi þess sem á undan er gengið. Þetta er ekki það sem flugfélögin, ferðaþjónustan og allra síst farþegar sem þurfa að komast á leiðarenda fyrir jólin, eiga skilið. Þannig ég trúi ekki öðru en að fólk sjái að sér og leysi þetta mál með skynsömum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert