„Mín skoðun er að það hefur verið ríkinu til skammar að láta þetta fara svona,“ segir Ívar Benediktsson, einn landeigenda á Gjögri.
„Það hefði átt að sjá sóma sinn í því að rífa vitann fyrir nokkrum árum síðan, úr því að ekki var meiri metnaður en raun ber vitni, fyrir að halda honum við.
Afi minn [Axel Thorarensen] hugsaði um þetta eins og barnið sitt,“ segir Ívar en langafi hans, faðir Axels, var fyrsti vitavörður Gjögurvita.
Ívar segir að vitinn hafi strangt til tekið verið í notkun þegar hann féll enda logaði þar enn ljós.
„Afi minn fór þarna upp í öllum veðrum allan ársins hring til þess að halda ljósinu við, því þá var gaslýsing í vitanum og ljósið átti til að slokkna á veturna,“ segir Ívar en amma hans og afi bjuggu á Gjögri, skammt frá vitanum.
„Hvert ár um miðjan ágúst var farið og kveikt á gaslýsingunni í vitanum. Allir sem þorðu og vildu og höfðu aldur til fóru upp. Þetta var alltaf mikil viðhöfn, þetta ágústkvöld þegar var kveikt á vitanum,“ segir Ívar, sem minnist þess einnig þegar amma hans fór upp með skúringafötu og sápu í annarri hendi til þess að halda vitanum í horfinu.
Ívar krefst þess ekki að nýr viti verði reistur, enda hafi vitinn fyrst og fremst haft tilfinningalegt gildi fyrir sitt leyti. Hann hafi sett fallegan svip á nærumhverfið og þjónað sínu hlutverki til hinsta dags.
„Það hefur logað á honum ljós alla daga. Hann hefur verið raflýstur síðan 1978, það hefur aldrei verið slökkt á honum. hann var í notkun þegar hann féll. Hins vegar er þessi vitatækni orðin úrelt. Vitar í sjálfu sér orðnir óstarfhæfir. Þetta er tækni síðustu aldar.“
Nú koma systkinin á Gjögur af og til og þykir þeim leitt hvernig ríkið hefur staðið að málum.
„Okkur þótti sorglegt mörgum hverjum sem erum þarna og höldum tryggð við hreppinn að ríkið skyldi fara svona illa með þennan vita. Að hann hrundi kom ekki á óvart og ég beið eftir að hann myndi hrynja.“ Nú vonar hann að ríkið losi landeigendur við það sem er eftir af vitanum.
„Það er ekkert í því fyrir mig eða landeigendur að þarna rísi nýr viti. Við ætlum ekki að gera kröfu um það. Við bíðum núna eftir því að ríkið taki draslið sitt í burtu.“