Hátt í 90 slys á reiðhjólum

Hjólreiðamaður á ferð í umferðinni.
Hjólreiðamaður á ferð í umferðinni. mbl.is/Árni Sæberg

Alls lentu 88 hjólandi vegfarendur í slysi í fyrra og slösuðust 28 alvarlega. Slys á reiðhjóli voru alls 90 árið 2021 og þar af eitt banaslys, auk þess sem 21 slasaðist alvarlega.

Þetta kemur fram í svari innviðaráðherra við fyrirspurn Gísla Rafns Ólafssonar þingmanns Pírata um slys á hjólandi vegfarendum. Tölurnar eru samkvæmt skráningu Samgöngustofu sem byggist á lögregluskýrslum.

Einn lést í fyrra eftir slys á rafhlaupahjóli. Alls lentu 176 manns í slysi á rafhlaupahjóli það ár. Árið 2021 varð einnig eitt banaslys.

Fram kemur í svarinu að innviðaráðuneytið og undirstofnanir þess eigi reglulega samráð við hagsmunasamtök sem fara með málefni hjólandi vegfarenda.

Auka umferðaröryggi á Íslandi

Spurt var að því hvaða forvarnaaðgerðir ráðuneytið hafi ráðist í til að draga úr slysum. Segir í svarinu að innviðaráðherra hafi lagt fram breytingar á umferðarlögum en þær ekki náð fram að ganga. Breytingarnar séu til þess fallnar að skýra reglur sem snúa að smáfarartækjum.

Þá leggi ráðuneytið fram tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun á þriggja ára fresti. Hluti af samgönguáætlun er umferðaröryggisáætlun sem hefur það hlutverk að auka umferðaröryggi á Íslandi, fækka umferðarslysum og bæta umferðarmenningu að því er varðar alla ferðamáta, þ.m.t. hjólreiðar.

„Á grundvelli samgönguáætlunar hafa styrkir verið veittir til sveitarfélaga frá árinu 2011 vegna framkvæmda við hjóla- og göngustíga meðfram þjóðvegum, en bættir innviðir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur eru ein forsenda þess að draga megi úr slysum,“ segir meðal annars í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka