Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, stundaði hestamennsku frá barnsaldri og átti einstaklega góðar stundir með vinum sínum í reiðtúrum og hestaferðum til fjalla.
„Við tókum þá gjarnan lagið félagarnir og svo söng ég með kórum í nokkur ár,“ segir hann. „Það var fastur liður í tilverunni að fara á hestamannamót og ég sótti landsmót hestamanna víðs vegar um landið. Ég tók að mér framkvæmdastjórn á fjórðungsmótum hestamanna og á landsmótum hestamanna bæði á Hellu og í Reykjavík. Það var einmitt á hestamannaballi í Hvolnum sumarið 1980 sem ég og glæsileg heimasæta úr Landeyjunum, Hrafnhildur Rósa Kristjánsdóttir, tókum fyrsta dansinn – gott ef ekki vangadans líka – og við höfum síðan dansað saman í gegnum lífið.“
Fannar hefur minna verið í hestamennskunni seinni árin en hefur gaman af smíðum og útivinnu og stundaði nám í húsasmíðadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti ásamt syni sínum.
„Það nám hefur komið að góðum notum og ég er fyrir bragðið nokkuð sjálfbjarga í trésmíðinni. Fjölskyldan á jörð og sumarbústað í Fljótshlíðinni og ég nýt mín vel í ýmsum útiverkum svo sem slætti, smíðum, girðingaviðhaldi og vinnu á dráttarvélum. Það blundar í mér lítill bóndi og mér líður vel í návist dýra og er áhugamaður um fugla.“
Ítarlega er rætt við Fannar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, bæði um ástandið í Grindavík og líf hans og fyrri störf.