Flest bendir til þess að að kvikustreymi hafi ekki stöðvast og að landris sé enn í gangi þó verulega hafi hægst á því. Þetta gefa gögn úr mælum Veðurstofunnar til kynna.
Sérfræðingar Veðurstofunnar eru enn að fara yfir gögn úr mælingum undanfarinna daga sem ættu að gefa betri mynd á það sem er að gerast að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Áhöld voru um það fyrir helgi hvort landris væri hætt. Slæmt veður gerði það að verkum að gps mælar virkuðu ekki sem skyldi en í hæglætis veðrinu sem nú er veita gögnin skýrari mynd.
Einar segir að nýtt hættumatskort verður gefið út miðvikudaginn 20. desember. „Þá munu sérfræðingar bera öll gögnin saman og gefa út sameiginlega niðurstöðu,“ segir Einar.
Hann segir að almannavarnir hafi það hlutverk að ákveða hvort Grindvíkingar fái að fara heim á næstunni þó ráðleggingar Veðurstofunnar ráði miklu þar um.
Á núgildandi hættumatskorti er Grindavík metið á hættusvæði vegna skjálftavirkni norðan við bæinn.