Mikil skemmdarverk voru unnin á Kirkjubólsvelli, golfvelli Golfklúbbs Sandgerðis, en bifreið var ekið yfir völlinn. Ekki er vitað hver ber ábyrgð á verknaðinum.
Lárus Óskarsson, formaður Golfklúbbs Sandgerðis, segir í samtali við mbl.is að menn hafi orðið varir við skemmdirnar í gær en að engar ábendingar hafi borist enn sem komið er um hver gerði þetta. Segir hann að miklar skemmdir hafi orðið á sjöttu flöt en einnig hafi verið keyrt yfir heilu brautirnar og spólað á þeim með tilheyrandi tjóni á vellinum.
„Þeir hafa verið ölvaðir eða einhver djöfulinn. Menn gera ekki svona allsgáðir, ég trúi því ekki,“ segir Lárus.
Klúbburinn er búinn að skoða myndbandsupptökur úr eftirlitsvélum en atvikið sást ekki á þeim. Það eru nokkur sumarhús nálægt vellinum og vonast Lárus til þess að einhver hafi séð eitthvað, en svo þurfi líklegast að leita til lögreglunnar.
Hann segir að ekki verði hægt að laga skemmdirnar fyrr en með vorinu.
Marta Eiríksdóttir birti færslu á facebook síðuna Íbúar Suðurnesjabæjar þar sem hún deildi myndum af verknaðinum og lýsti aðstæðum.
„Það var ófögur sjón sem blasti við í dagsbirtunni í morgun, sunnudag, en svo virðist sem bifreið hafi verið ekið þvers og kruss um golfvöll Golfklúbbs Sandgerðis,“ segir meðal annars í færslu hennar.