Nauðsynlegt að gera lagabreytingar

Dómarnir féllu í Héraðsdómi Reykjaness og Héraðsdómi Norðurlands vestra. Dómi …
Dómarnir féllu í Héraðsdómi Reykjaness og Héraðsdómi Norðurlands vestra. Dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra hefur verið áfrýjað. Samsett mynd

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins telur nauðsynlegt að gera breytingar á kynferðisbrotakafla hegningarlaga í ljósi niðurstaðna tveggja héraðsdómara um að sýkna karlmenn af ákæru um nauðgun vegna samræðis við börn undir 15 ára aldri.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að mögulega þurfi að endurskoða lögin komist Landsréttur að sömu niðurstöðu. Gísli Rafn Ólafsson þingmaður Pírata tekur í sama streng. Hann vinnur nú, ásamt Hafdísi Hrönn, í óformlegum þverpólitískum samráðshópi þingmanna sem skoðar mögulega breytingar á hegningarlögum. Hugsanlegt er að hópurinn skoði hvort breyta þurfi nauðgunarákvæði laganna.

Eins og Morgunblaðið fjallaði um á dögunum féllu nýlega tveir dómar þar sem fullorðnir karlmenn voru sakfelldir fyrir samræði við stúlkur undir 15 ára aldri, en sýknaðir af ákæru um nauðgun. Dómarnir féllu í Héraðsdómi Reykjaness og Héraðsdómi Norðurlands vestra.

Talsvert valdaójafnvægi

Hafdís Hrönn segir dómana hafa komið sér á óvart. Hún telur að sakfella hefði átt fyrir nauðgun.

„Í báðum tilvikum má segja að dómurinn hafi komið á óvart þar sem dæmt var fyrir samræði við barn. Ekki fyrir nauðgun eða misbeitingu eins og hefði átt að gera. Að mínu mati er samræði við barn sem hefur ekki aldur til að veita samþykki alltaf nauðgun,“ segir í skriflegu svari Hafdísar Hrannar til Morgunblaðsins.

Segir Hafdís Hrönn talsvert valdaójafnvægi vera á milli barna og fullorðinna, það eigi að vera ráðandi þáttur í mati dómstóla þegar fullorðinn einstaklingur hefur samræði við barn undir fimmtán ára aldri. Nauðsynlegt sé að gera lagabreytingar í ljósi dómanna tveggja.

„Í þessum dómum er vísað til „vilja löggjafans“, sem gefur til kynna að við þurfum að herða rammann í kringum þessi brot. Ef núverandi túlkun dómenda er á þennan veg þá þurfum við að sjálfsögðu að bæta lagarammann og gera það mjög skýrt að um nauðgun er að ræða og að refsingin fylgi því.

Nánari umfjöllun má finna í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka