Þingmenn fengu kartöflur í skóinn

Síðasti þingdagur fyrir jól var í gær.
Síðasti þingdagur fyrir jól var í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþingi hefur verið frestað til 22. janúar og er þingið því komið í jólafrí. Síðasti þingdagur var í gær þar sem meðal annars voru samþykkt fjárlög og fjáraukalög.

Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar þakkaði forseta, varaforsetum og starfsmönnum fyrir samstarfið á árinu.

„Að vísu hefur starfsfólk eldhússins afrekað það að ekki er mögulegt fyrir mörg okkar að halda líkamsvextinum í gullinsniði og forseti hefur auðvitað þurft nokkrum sinnum á síðustu dögum að gefa nokkrum okkar kartöflu í skóinn.

En hvort tveggja er eitthvað sem við getum örugglega bætt fyrir á næsta vori,“ sagði Logi meðal annars.

Kristján Jóhannsson fær heiðurslaun listamanna

Alþingi samþykkti einnig lög sem heimila stofnframlag ríkisins til kaupa á allt að 60 almennum íbúðum til að bregðast við húsnæðisvanda Grindvíkinga vegna náttúruhamfara þar.

Þá var samþykkt að Kristján Jóhannsson óperusöngvari muni á nýju ári bætast í hóp listamanna sem hljóta heiðurslaun. Alls greiddu 45 atkvæði með tillögunni og enginn gegn henni.

Kristján bætist í hópinn í stað Guðbergs Bergssonar rithöfundar sem lést á árinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka