Vilja ekki „kippa undan“ langtímasamningum

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, segir að Samtök atvinnulífsins geti ekki komið til fundar við flugumferðarstjóra á þeim nótum sem í kröfum þeirra felst. 

Sagði hún í samtali við mbl.is í gær að SA muni ekki funda með flugumferðarstjórum nema þeir hverfi frá fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum. 

Al­dís Magnús­dótt­ir, sátta­semj­ari í deilu flug­um­ferðar­stjóra og Isa­via, kvaðst í framhaldinu hafa heim­ild­ir til að knýja deiluaðila á fund. Hún tel­ur þó ekki ástæðu til þess að svo stöddu. 

„Ef við myndum gera það (ganga að kröfum flugumferðarstjóra) myndum við kippa undan grundvelli mögulegra langtíma samninga og raska stöðugleika,“ segir Sigríður Margrét.

Flugumferðarstjórar að störfum í turninum.
Flugumferðarstjórar að störfum í turninum. Ljósmynd/Ernir Eyjólfsson

Barátta við verðbólgu og vexti allt of mikilvæg

Hún segir baráttuna fyrir minni verðbólgu og lægri vöxtum allt of mikilvæga til þess að hægt sé að ganga að slíkum kröfum.

„Við höfum skilning á því að flugumferðarstjórar vilji sækja sér kjarabætur en við vitum líka að kjarabætur fást ekki með launahækunum umfram það sem innistæða er fyrir,“ segir Sigríður Margrét.

Hún bendir á að heimili og fyrirtæki verði fyrir tjóni á hverjum einasta degi vegna vaxtastigs og verðbólgu. „Okkur mun ekki takast að ná þessu niður nema allir axli ábyrgð,“ segir Sigríður Margrét.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka