Í bókinni Séra Friðrik og drengirnir hans rekur sagnfræðingurinn Guðmundur Magnússon ævi séra Friðriks Friðrikssonar. Í kjölfar útgáfunnar hafa kviknað spurningar um óviðeigandi framkomu Friðriks við unga pilta.
– Umræðan um bókina hefur snúist um hugsanlega barnagirnd séra Friðriks, eða eins og sagði í Heimildinni: „Stóra opinberunin í bókinni er að séra Friðrik hafi misnotað ungan dreng á Íslandi og verið með barnagirnd.“
„Ef þú lest bókina þá sérðu að ég nota þetta hugtak hvergi og ég tala heldur ekki um samkynhneigð í samhengi við hann. Það þarf að setja ákveðinn fyrirvara þegar slík nútímahugtök eru notuð sem ekki þekktust nema að litlu leyti á hans tíma, þannig að ég reyni að fara varlega í hugtakanotkun um svona samskipti.“
– Getum við ekki rætt það sem séra Friðrik kom til leiðar án þess að hafa hugsanlega barnagirnd hans í huga?
„Það er auðvitað hugsanlegt og það er eins og við eigum mjög erfitt með að horfast í augu við að allir menn eru breyskir og þegar það kemur upp svona atriði og atvik, eins og sagt er frá í bókinni og síðan í fjölmiðlum í kjölfarið, má segja að það yfirskyggi allt það góða sem séra Friðrik gerði og auðvitað er það öðrum þræði dapurlegt.
Auðvitað eigum við ekki að loka augum fyrir því sem er ósæmandi, en það er líka dapurlegt ef hitt gleymist sem var virkilega merkilegt menningarstarf sem hann innti af hendi, en það er einhvern veginn eins og menn vilji sjá hlutina ýmist svart eða hvítt, að menn séu góðir eða vondir, en þannig er það auðvitað ekki í lífinu sjálfu. Að minnsta kosti er í þessari bók mesti þunginn á það góða starf sem hann vann.
Þetta er sagnfræðileg ævisaga og þar er farið í saumana á starfsævi hans og einkalífi og það er auðvitað margt dregið fram sem mönnum þykir óþægilegt eða jafnvel skuggalegt, sérstaklega þessi óþægilega nánu samskipti hans við pilta og drengi sem trufla fólk og það skil ég alveg.“
„Ég passa mig á því að nota öll hugtök um svona samskipti varlega. Það er að vísu kafli í bókinni sem er mjög áhugaverður fyrir sögu sögu samkynhneigðra á Íslandi, og fjallar um einn af bestu vinum og velunnurum Friðriks, Guðmund Bjarnason klæðskera.
Í bréfasafni Friðriks eru varðveitt mjög persónuleg bréf hans til Friðriks þar sem hann greinir honum frá því að hann sé homoseksual, eins og hann notar það, og hann hafi orðið þess áskynja hjá lækni í Danmörku. Það er snemma á öldinni sem leið og ég held að það sé elsta dæmið um þetta orð í íslenski ritmáli um þetta orð.
Það sem er áhugaverðast við þessi bréf Guðmundar er sú angist sem kemur frama í bréfunum og sú vanlíðan sem hann finnur til vegna þessar hneigðar sinnar. Þjóðfélagið á þeim tíma hvorki skildi né virti fólk með þessar hneigðir og það mætti gríðarlegum fordómum. Lengi var þetta sakarefni fyrir dómstólum þannig að hann átti mjög erfitt uppdráttar, en hann lýsir því hvernig hann sækir fundi í KFUM vegna þess að hann vill vera innan um piltana og karlana sem hann hefur einhverjar tilfinningar til. Við vitum hinsvegar ekki hvernig Friðrik brást við þessu bréfi, en vitum að vinskapur þeirra stóð traustur eftir þetta.“