Þriggja eyja klasi á Breiðafirði, örskammt frá Stykkishólmi, er nú kominn í sölu hjá Fasteignamiðstöðinni. Stærst í menginu er Melrakkaey en rétt vestan hennar og norðan eru Andey og Vatnsey. Ónefndur er Melrakkaeyjarhólmi sem er sunnan við eyna og á móti honum gengur höfði eða klapparnef sem kallast Skansinn. Þar nærri er höfn og austan við hana Melrakkaeyjartangi. Bæjartóftir eru á Skansinum og rústir peningshúsa uppi á miðri eynni.
Nokkur dúntekja er í Andey og Vatnsey, mikið lundavarp og við eyjarnar eru miklar breiður þörunga sem slegnar eru reglulega samkvæmt nánara samkomulagi. Eyjarnar hafa verið nýttar til sauðfjárbeitar síðustu árin og þannig hefur tekist að halda sinugróðri og hvönn í skefjum. Engin hús eru í eyjunum en í Melrakkaey eru minkar í lystigarði, þangað sem heldra fólki af herskipum sem komu inn til Stykkishólms á seinni hluta 19. aldar á stundum að hafa verið boðið til veisluhalda í lystireisum.
„Eyjar á Breiðafirði hafa alltaf markhóp,“ segir Magnús Leopoldsson lgf. hjá Fasteigamiðstöðinni í samtali við Morgunblaðið.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.