„Auðvitað er þetta borgaraleg óhlýðni en úr því maður lætur ekki handtaka sig held ég nú að þetta flokkist ekki undir stóra glæpi,“ segir Ólafur Benedikt Arnberg Þórðarson sem rekur Hótel Grindavík og veitingastaðinn Brúna þar í bænum en honum var hótað handtöku í gærkvöldi yfirgæfi hann bæinn ekki.
„En það sem hefur gerst núna í málinu er að lögreglustjórinn er að mýkjast, ég heyrði nú í honum í útvarpinu áðan, og hann spáir jólunum heima. Það er bara það sem við viljum,“ segir Ólafur enn fremur og reiknar ekki með sérstökum eftirmálum af afskiptum lögreglu í gær.
„Ég tel að þessu sé lokið núna og ég vil bara opna mitt fyrirtæki og taka hérna inn rútur fullar af fólki í mat. Svo fer það upp í rútu og keyrir í burtu eins og það hefur alltaf gert. Eftir að Bláa lónið opnaði í gær fylltist mælirinn hjá manni. Ég hef nú alla tíð, eða þessar vikur sem þetta hefur staðið, trúað því að ef eitthvað væri í hættu þá væri þá Bláa lónið og allt þar í kring en ekki hérna niðri í fjöru,“ segir Ólafur sem stendur nú í ströngu við að færa út kvíarnar í rekstri sínum.
„Maður var svona mátulega bjartsýnn áður en þetta dundi allt yfir, það er búið að grafa hérna fyrir 800 fermetra stækkun en hún þarf sjálfsagt að bíða eftir auknu lánstrausti Grindvíkinga og Grindavíkur,“ heldur hótelstjórinn áfram sem staðið hefur í rekstri sínum í tólf ár en rak áður útgerð og fiskvinnslu auk þess að vera skipstjóri.
„Ég get ekki trúað öðru,“ segir hann, spurður út í málefni Grindvíkinga og hvenær þeir fái að snúa heim. „Þetta er einhver pattstaða sem enginn getur komið sér úr og það eru náttúrulega yfirvöld, allar tegundir af þeim, sem þurfa að leysa þennan hnút. Það er ýmislegt sagt og ósagt í þessu öllu saman og ef þessu linnir ekki núna þá verður maður bara að hvolfa úr skjóðunni og þá verða menn að kannast við sína lygi og það er ekkert allt sem þolir dagsins ljós. Fullt af fólki er að hírast í allt of litlu húsnæði við þrengsli og börnin óróleg og leiðinleg,“ segir Ólafur.
Hann kveður um 200 hús skemmd, ónýt séu 30 til 40, „í öðru er hægt að búa öllu saman. Stjórnkerfið niðri í Reykjavík er vonandi allt heilt og maður vonar bara að þeir geti komið heim fyrir jólin,“ segir Ólafur og slær svo botninn í mál sitt:
„Ég bið Grindvíkinga fyrirgefningar á þessari ókurteisi minni við valdið, en ég vona að ég geti fært þeim gleðileg jól og gott og farsælt ár hérna á staðnum í staðinn.“