Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir engan fund á dagkrá þingflokksins í dag til að ræða mögulega lagasetningu á vinnudeilu flugumferðarstjóra við Isavia.
Í samtali við mbl.is mátti samt greina að mikill þungi er kominn í málið. „Það er ekki léttvæg aðgerð að stíga inn í kjaradeilur, en hér liggja undir gríðarlega miklir hagsmunir fyrir íslenskt samfélag. Fylgst er gríðarlega náið með stöðunni og þingið er klárt að koma saman til þess að setja lög á verkfallið ef þess mun þurfa. Auðvitað vona allir að lending náist áður en til þess kemur.“
Telur Hildur að þolinmæði samfélagsins fyrir aðgerðum flugumferðarstjóra sé að þverra og því æ líklegra að gripið verði inn í.
Hún var spurð að því hvort eðlilegt væri að kjör flugumferðarstjóra væru ákveðinn með svipuðum hætti að annarra mikilvægra stétta eins og lögreglumanna. Hildur svaraði: „Mér þykir réttmætt að skoða það mál í því samhengi sem á undan er gengið, það er að kjör flugumferðarstjóra verði ákveðin með öðrum hætti en nú er.“
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er í þeirri sérstöku stöðu að vera hvort tveggja í senn þingmaður of flugumferðarstjóri.
„Í þessu máli hef ég aðeins einn hatt. Ég hef verið þingmaður í sjö ár. Rétt er reyndar að ég hef viðhaldið starfsréttindum mínum sem flugumferðarstjóri og er í stéttarfélaginu. Ég held því að það sé ofsagt að ég sé með tvo hatta.“
Njáll Trausti hefur engin afskipti haft af þessari deilu, en hefur reynslu úr kjarabaráttu flugumferðarstjóra fyrir tveimur áratugum síðan.
„Ýmislegt verður að hafa í huga. Sem dæmi eru flugumferðarstjórar ekki ríkisstarfsmenn. Því lauk 1. janúar 2007, þegar flugmálastjórn var lögð af.
Þegar ég var viðriðinn kjaramál flugumferðarstjóra fyrir margt löngu þá var gerð alþjóðleg skýrsla af Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) þar sem kom fram að það væri aðeins ein starfsstétt sem flugumferðarstjórar geta borið sig saman við, og það eru flugstjórar. Þá er verið að vísa í það að ábyrgð þessara tveggja stétta er sambærileg.“
Hann segist kannast við kunnuleg stef úr baráttunni núna, sama atburðarrás fari af stað í hvert skipti.
Njáll Trausti staðfesti að enginn fundur hafi verið boðaður í þingflokknum um þetta mál í dag.