Enn nægur tími til að koma með gjafir

Með pakka við póstbílinn.
Með pakka við póstbílinn. Ljósmynd/Aðsend

Pósturinn fór á föstudaginn í fyrstu ferð eftir jólagjöfum sem safnast hafa undir tréð í Smáralindinni. Póstbíllinn var skreyttur skærum jólaljósum af þessu tilefni.

Sandra Arnardóttir, markaðsstjóri Smáralindar, segir í tilkynningu að söfnunin fari ágætlega af stað. Hún vill vekja athygli á því að enn er nægur tími til að koma með gjafir, merkja þær aldri og kyni barns og stinga undir tréð.

Þegar gjöfum hafði verið staflað í póstbílinn lagði hann leið sína til Mæðrastyrksnefndar í Kópavogi og Hjálparstarfs kirkjunnar. Góðgerðasamtökin sjá svo um að koma gjöfunum í hendur þeirra sem þurfa mest á því að halda. Síðar í mánuðinum fá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og Fjölskylduhjálp Íslands fyrstu sendingar af jólapökkum.

„Það er ánægjulegt að fá að taka þátt í þessu verkefni. Þetta er ein af þeim jólahefðum á Íslandi sem er ómissandi, það geta flestir lagt eitthvað af mörkum,“ segir Vilborg Ásta Árnadóttir, markaðsstjóri Póstsins, sem hvetur fólk til að koma með pakka í Smáralind handa þeim sem minna mega sín.

„Fyrir landsbyggðarfólkið okkar er velkomið að póstleggja pakkann á hvaða pósthúsi sem er, sér að kostnaðarlausu. Það er nóg að nefna að pakkinn sé fyrir Pakkajólin. Við vonum að þetta sé fyrsta ferðin af mörgum þetta árið til að sækja pakka fyrir Pakkajól Smáralindar,“ segir Vilborg í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka