Handteknir vegna ábendinga frá Íslendingum

Á myndinni er hluti af því þýfi sem lögreglan lagði …
Á myndinni er hluti af því þýfi sem lögreglan lagði hald á. AFP/Lögreglan á Spáni

Ábendingar Íslendinga um verðmæti sem tekin voru úr ferðatöskum á flugvellinum á Tenerife komu lögreglu að góðum notum við rannsókn málsins. Tilkynningar um á hvaða tímum verðmæti hurfu úr töskum voru sérstaklega nytsamlegar.

Fyrir helgi greindi lögreglan á Spáni frá því að 14 starfsmenn á Tenerife South-flugvellinum hefðu verið handteknir og hald lagt á þýfi úr töskum. Um 20 starfsmenn flugvallarins eru einnig til rannsóknar.

Harpa Rós Júlíusdóttir hefur um nokkurt skeið aðstoðað Íslendinga sem orðið hafa fyrir barðinu á ræningjunum á Tenerife og komið upplýsingum frá Íslendingum áfram til lögreglu. Hún vann á flugvellinum á Tenerife í sjö ár en er nú flutt heim til Íslands.

Fjöldi manna kom að þjófnaðinum

Harpa Rós kveðst í samtali við mbl.is þó ekki vita meira en það sem fram hefur komið í fréttum um rannsóknina og vill lítið tjá sig um málið. Hún staðfestir þó að ábendingar, sem hún miðlaði áfram frá Íslendingum, hafi veitt lögreglu hvað mestar upplýsingar um hvað var í gangi á flugvellinum. 

Segir hún málið viðamikið og mikla rannsóknarvinnu vera framundan hjá lögreglu.

Málið sneri einna helst að því að finna út á hvaða tímum verðmæti hurfu úr töskum og að para það saman við hverjir voru á vakt á þeim tímum. Ljóst sé að fjöldi manna hafi komið að skipulagningu og framkvæmd á flugvellinum til að allt gengi upp. 

Margir Íslendingar hafa orðið fyrir barðinu á þjófunum sem rændu …
Margir Íslendingar hafa orðið fyrir barðinu á þjófunum sem rændu verðmætum úr töskum á flugvellinum á Tenerife. AFP/Desiree Martin

Jókst eftir faraldurinn

Eins og mbl.is hefur fjallað um á síðustu árum hefur fjöldi Íslendinga lent í því að verðmæti voru tekin úr töskum á leið þeirra til og frá Tenerife. Þá sagði Sigvaldi Kaldalóns, Svali, sem rekur ferðaþjónustu á Tenerife, að eftir að heimsfaraldrinum lauk hafi það aukist til muna að verðmæti væru tekin úr töskum. 

Inni á Facebook-hópnum Tenerife Tips! skiptust Tenerife farar á upplýsingum og ráðum um hvernig mætti verjast þrjótunum og höfðu margir tekið upp á því að plasta töskur sínar fyrir brottför heim til Íslands. 

Tenerife-farar sem orðið hafa fyrir barðinu á ræningjunum undanfarna mánuði geta haft samband við Hörpu Rós í tölvupóstfangið rosharpa@gmail.com með upplýsingar um verðmæti sem tekin voru úr töskum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert