„Kröfur sem er ógerningur að verða við“

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að það sé á ábyrgð samningsaðila að reyna að ná samningum í kjaradeildu Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins.

Þriðju lotu verkfalls flugumferðarstjóra lauk klukkan 10 í morgun en þeir hafa boðað fjórðu vinnustöðvunina á miðvikudag, frá klukkan 4 að nóttu til 10 að morgni.

„Kröfur flugumferðarstjóra eru svo langt umfram það sem aðrir hafa fengið og sáttasemjari sér ekki tilefni til að boða til fundar. Flugumferðarstjórar vita að þeir eru með kröfur sem er ógerningur að verða við og má þannig segja að þeir séu misnota sterka stöðu sína vegna þess að við erum í þeirri sérstöðu að flug er eini samgöngumátinn til og frá landinu ólikt öðrum Evrópulöndum,“ segir Sigríður Margrét við mbl.is.

Hún segir að fjárhagslegt tjón af hverjum degi í verkfalli nemi á annan milljarð króna og að tjónið sé mest fyrir ferðaþjónustuna sem sé rétt að jafna sig eftir heimsfaraldur og náttúruhamfarir.

„Verst er þetta að bitna á þeim þúsundum flugfarþega sem eru margir með ferðaáætlanir yfir hátíðarnar og eru núna í mikilli óvissu,“ segir Sigríður Margrét.

Staðan er afar erfið

Spurð í hugsanlega lagasetningu stjórnvalda á verkfall flugumferðarstjóra segir hún:

„Það er á ábyrgð samningsaðila að reyna að ná samningum. Staðan er hins vegar afar erfið og það er alveg ljóst að við getum ekki samið um hækkanir umfram það sem samið var við alla aðra hópa á almennum vinnumarkaði,“ segir Sigríður Margrét og bætir því við að SA hafi verið í stöðugu sambandi við aðila málsins.

Ekki hefur verið boðaður fundur í kjaradeilunni en Sigríður Margrét sagði í samtali við mbl.is um helgina að Samtök atvinnulífsins muni ekki mæta á fund sáttasemjara með flugumferðarstjórum nema þeir falli frá vinnustöðvun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka