Líknarmeðferð í boði fyrir allt heimilisfólk hjúkrunarheimila

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að vinna að framgangi líknarmeðferðar á hjúkrunarheimili og setja viðmið um þjónustuna.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en þar segir að vinna hópsins verður byggð á aðgerðaráætlun um líknarmeðferð til ársins 2025 sem kveður á um að líknarmeðferð skuli vera í boði fyrir allt heimilisfólk hjúkrunarheimila sem þarf á henni að halda.

Starfshópnum er sérstaklega ætlað að fjalla um fjóra þætti aðgerðaáætlunarinnar. Þeir eru:

  • Að stuðla að virkri teymisvinnu fagstétta áhjúkrunarheimilum um líknarþjónustu, m.a. með skilgreiningu verklags og áherslur um innihald samninga um aðkomu lækna að þjónustunni með þekkingu á almennri líknarmeðferð. (Aðgerð 2.3).
  • Að gera tillögur um leiðir til að efla sérþekkingu fagfólks sem starfar á hjúkrunarheimilum á líknarmeðferð. (Aðgerð 3.3).
  • Að gera tillögur um endurskoðun á kröfulýsingu fyrir hjúkrunarheimili vegna reksturs líknarrýma ásamt tillögum að viðmiðum um innlagnir í líknarrými á hjúkrunarheimilum. (Aðgerð 5.2).
  • Að tryggja gæði líknarþjónustu á hjúkrunarheimilum, m.a. með tillögum um staðlaða verkferla, skilgreiningu viðmiða um mönnun líknarmeðferðar og tillögum að hæfnikröfum og matskvörðum um færni starfsfólks. (Aðgerð 6.2).

Auk þess að fjalla um framantaldar aðgerðir er hópnum einnig falið að skoða aðra þá þætti sem geta stutt við faglega uppbyggingu líknarþjónustu á hjúkrunarheimilum.

Formaður starfshópsins er Svandís Íris Hálfdánardóttir, tilnefnd af Líknarmiðstöð Landspítala. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka