Vinnustöðvun flugumferðarstjóra hófst klukkan 4 í nótt og stendur hún yfir til klukkan 10. Enginn sáttafundur hefur verið boðaður í deilunni.
Reikna má með því að verkfallið hafi áhrif á þúsundir flugfarþega.
Þetta er þriðji verkfallsdagurinn af fjórum sem hafa verið boðaðir í þessum mánuði en flugumferðarstjórar beita verkfallsaðgerðum nú í þriðja skiptið á fimm ára tímabili.
Fjórða vinnustöðvunin er boðuð á miðvikudaginn.
„Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) hefur boðað til verkfalla flugumferðarstjóra í flugturninum á Keflavíkurflugvelli mánudaginn 18. desember kl. 4:00-10:00 og miðvikudaginn 20. desember kl. 4:00-10:00. Ekkert flug verður þá um völlinn á þeim tíma en undanþágur verða veittar fyrir leitar- og björgunarflug, sjúkraflug og flug á vegum Landhelgisgæslunnar,” segir í tilkynningu frá Isavia.
„Farþegar sem eiga flug til eða frá Keflavíkurflugvelli á þessu tímabili eru hvattir til að fylgjast með upplýsingum frá sínum flugfélögum eða kanna flugáætlun á vef Keflavíkurflugvallar.”