„Maður er alltaf vongóður og nú sjáum við til. Það er tíðindalítið þessa dagana hvað jarðhræringar varðar og nú bíðum við eftir uppfærðu hættumati Veðurstofunnar á miðvikudaginn,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum spurður um það hvort aflétting rýmingar í Grindavík sé á næsta leiti.
Lögreglan á Suðurnesjum fer með endanleg ákvörðunarvald um það hvenær Grindvíkum verður hleypt heim að nýju þó samráð verði haft við viðbragðsaðila hvað afléttingu rýmingar varðar. „Það gæti komið til þess að rýmingu verði lyft,“ segir Úlfar.
Á núgildandi hættumatskorti er Grindavík metið á hættusvæði vegna skjálftavirkni norðan við bæinn.
Í fréttatilkynningu frá embætti lögreglustjóra frá 13. desember var sagt að næsta ákvörðun yrði tekin í byrjun næsta árs. „En svo erum við alltaf að skoða stöðuna dag frá degi,“ segir Úlfar. „Það eru margir sem vilja komast heim. Sennilega 70% íbúa hér um bil,“ bætir Úlfar við.