Verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra setja strik í reikninginn hjá Icelandair og Play og þurfa flugfélögin að hliðra flugi til næstu daga.
Þriðja lota verkfallsaðgerða flugumferðarstjóra hófst klukkan 4 í nótt og stendur til klukkan 10 og á miðvikudag hafa flugumferðarstjórar boðað til verkfalls á sama tíma.
„Þetta er svipað plan og í síðustu viku en því nær sem dregur jólum því meira er bókað í vélarnar og þeim mun minna svigrúm til þess að færa farþega yfir á önnur flug. Þess vegna verður erfiðara að koma öllum á áfangastað innan dagsins. Það virðist ætla að takast að mestu leyti í dag en miðvikudagurinn verður erfiðari,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, við mbl.is.
Guðni segir að raskanirnar í morgun muni hafa keðjuverkandi áhrif á flug seinnipartinn og biður Icelandir farþega um að fylgjast vel með skilaboðum frá flugfélaginu. Þá er hægt að fylgjast með sínu flugi á vef Icelandair og í appinu.
Tíu vélar frá Icelandair sem áttu að lenda upp úr klukkan 6 í morgun koma um klukkan 10. 21 vél sem átti að fara í loftið klukkan 8 í morgun er á áætlun milli klukkan 10 til 12 og þá hefur fjórum brottförum verið aflýst og farþegum komið á áfangastað með öðrum leiðum.
Play gerir tímabundnar breytingar á tengileiðakerfi sínu næstu þrjá daga vegna verkfalls flugumferðarstjóra.
„Það verður seinkun á komum véla frá Norður-Ameríku um sex klukkutíma næstu þrjá dagana og brottfarir til borgaráfangastaða Play í Evrópu sem tengjast við Ameríkuflugin seinkar einnig um sex klukkutíma,“ segir Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, við mbl.is.
Birgir segir að gengið er út frá að eftirmiðdegis brottfarir til sólarlandaáfangastaða í leiðakerfi Play muni vera á áætlun.