Borgarráð hefur samþykkt að veita Þorpi vistfélagi ehf. lóðarvilyrði vegna uppbyggingar á umhverfisvænu húsnæði á Gufunesbryggju, hinni gömlu bryggju áburðarverksmiðjunnar. Þorpið hefur á undanförnum árum staðið fyrir uppbyggingu húsnæðis í Gufunesi.
„Sjóböð, sundlaug, heilsulind, íbúðir, leikskóli, verslun og veitingastaður neðansjávar verða kjarni uppbyggingar í Gufunesi,“ segir í kynningu á heimasíðu Þorpsins.
Fram kemur í greinargerð skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að Þorpinu hafi verið boðið til viðræðna um uppbyggingu á lóðinni á grundvelli niðurstöðu dómnefndar í samkeppninni Re-inventing Cities.
Lóðarvilyrði er háð því skilyrði að uppbygging á lóðinni verði unnin í samræmi við tillöguna sem send var inn í samkeppnina. Fyrirhuguð uppbygging á lóðinni á að verða í sérflokki hvað varðar umhverfisgæði. Stærð og staðsetning lóðarinnar, byggingarmagn o.fl. verður nánar ákveðið í breyttu deiliskipulagi í samræmi við tillöguna.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.