„Ef maður tekur mið af síðustu mælingu Rannsóknarsetursins [Rannsóknarseturs verslunarinnar] sem birtist fyrir viku þá lítur þetta bara alveg ágætlega út,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, um strauma og stefnur í jólaverslun landans þennan desembermánuðinn.
„Í stóru myndinni, 30.000 fetunum eins og maður segir stundum, er stóra breytingin sú að stærri og stærri hluti þessarar svokölluðu jólaverslunar fer fram í nóvember, þetta dreifist yfir mun lengri tíma en áður og ástæðan er, eins og allir vita, þessir stóru alþjóðlegu viðskiptadagar þar sem tilboðin eru mjög góð og fólk nýtir sér það í æ ríkari mæli,“ heldur Andrés áfram.
Hann segir mælinguna fyrir nóvember, að teknu tilliti til verðbólgu, sýna örlítið minni veltu en í fyrra. „Það er vitað að alltaf þegar kjarasamningar eru lausir og kjaraviðræður fram undan skapar það alltaf ákveðna óvissu og reynslan segir manni bara að þegar svoleiðis er heldur fólk frekar að sér höndum frekar en hitt, það hefur alltaf verið þannig og það virðist ekkert breytast,“ segir framkvæmdastjórinn enn fremur.
Þá bendir hann á að stór hópur fólks í þjóðfélaginu sjái fram á stórbreytt kjör á húsnæðislánum sínum, svokallaða snjóhengju sem verið hefur nokkuð í umræðunni að undanförnu. „Það er fólk sem tók húsnæðislán á föstum vöxtum fyrir fimm árum og til fimm ára. Slíkir samningar renna út á næsta ári og slíkt skapar ákveðna óvissu og stór hópur ungs fólks sem var í fyrstu kaupum sér fram á gjörbreytt kjör á fasteignalánunum. Það hefur líka áhrif, tvímælalaust,“ segir Andrés.
Hann tekur fram að það sem einnig hafi verið athyglisvert við mælingu Rannsóknasetursins nýverið hafi verið að aldrei hafi eins stór hluti af heildarveltu smásölu verið í formi netverslunar, rétt tæp 20 prósent. „Það er það mesta sem við höfum séð hingað til,“ segir Andrés Magnússon að lokum um verslunarhætti landsmanna fyrir jólin 2023.