Neyðarstigi lýst

Ekki er vitað hve eldgosið er langt frá Grindavík.
Ekki er vitað hve eldgosið er langt frá Grindavík. Ljósmynd/Ragnheiður Gunnarsdóttir

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, hafa ákveðið að fara neyðarstig Almannavarna vegna eldgos á Reykjanesi. Samhæfingastöð Almannavarna hefur verið virkjuð.

„Við viljum byrja á því að biðja fólk alls ekki um að fara á staðinn. Við vitum ekki hve gosið er langt frá Grindavík. Það verður ekki ljóst fyrr en þyrla hefur flogið yfir staðinn,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá almannavörnum. 

„Við fyrstu sýn virðist þetta vera stærra en síðustu eldgos á Reykjanesskaganum, þess vegna er mjög mikilvægt að fólk fari ekki á staðinn,“ segir Hjördís. 

Hjördís segist ekki vita til þess að nokkur sé inni í Grindavík en ekki sé hægt að útiloka það. 

„Eldgosið er ekki inni í bænum þó það sé ekki langt frá. Og við erum ekki með nákvæma staðsetningu. Viðbragðsaðilar þurfa nú góðan tíma til að treysta öryggi allra. Það er ekki á það bætandi að leita eftir fólki. Því ítrekum við það að enginn  á að vera á staðnum,“ segir Hjördís.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert