Rannsókn á andláti ungrar konu lokið

Horft yfir Selfoss. Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi, á andláti ungrar …
Horft yfir Selfoss. Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi, á andláti ungrar konu sem fannst látin í apríl á þessu ári, er lokið. mbl.is/Sigurður Bogi

Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi, á andláti ungrar konu sem fannst látin í apríl á þessu ári, er lokið og búið er að senda málið til héraðssaksóknara sem mun taka ákvörðun um hvort ungur maður með réttarstöðu sakbornings verður ákærður eða ekki.

Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Kona á þrítugs­aldri fannst lát­in í heima­húsi á Sel­fossi 27. apríl. Bráðabirgðakrufning á kon­unni benti til þess að um mann­dráp væri að ræða þó það hefði ekki legið skýrt fyrir. Maðurinn hafnar því að hafa banað henni með kyrkingu og segist hafa komið að henni látinni.

Sveinn gat ekki tjáð sig um niðurstöðu endanlegar krufningarskýrslu.

Var í gæsluvarðhaldi í 18 vikur

Maður­inn sem ligg­ur und­ir grun sat í 18 vik­ur í gæslu­v­arðhaldi, eða rúm­lega fjóra mánuði. Lög um meðferð saka­mála kveða á um að ekki megi úr­sk­urða sak­born­ing til að sæta gæslu­v­arðhaldi leng­ur en tólf vik­ur nema að brýn­ir rann­sókn­ar­hags­mun­ir krefj­ist þess.

Maðurinn var svo settur í farbann í kjölfar þess að gæsluvarðhaldi lauk en rann það sitt skeið í byrjun desember. Lög­regl­an fór fram á að far­bannið yrði fram­lengt en Héraðsdóm­ur Suður­lands hafnaði kröf­unni. Var sú ákvörðun kærð til Landsréttar en Landsréttur staðfesti ákvörðun Héraðsdóms.

Tók langan tím að fá gögn afhent

Varðandi það af hverju rannsóknin stóð svona lengi yfir, eða nærri 230 daga, segir Sveinn að það hafi verið vegna þess að það hafi tekið langan tíma að fá gögn afhent.

„Við þurftum að bíða töluvert eftir gögnum. Bæði krufningarskýrslan tók langan tíma og rannsóknir tengt krufningunni, eins vorum við að bíða eftir niðurstöðu úr tæknigögnum, símagögnum,“ segir Sveinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert