Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segist skilja afstöðu þeirra sem krefjist þess að Ísland beiti sér fyrir því að Ísrael verði vísað úr Eurovision-söngvakeppninni mætavel.
Þó þurfi að horfa til ýmissa sjónarmiða þegar komi að því að taka ákvörðun um hvort og hvernig sé hægt að bregðast við kröfum sem varði þátttöku Íslands í keppninni.
„Við finnum bara fyrir mjög skýrri afstöðu þessa hóps og fleiri til þessa máls og við höfum reynt okkar besta til að útskýra stöðuna; þá stöðu sem við erum í, þá stöðu sem að EBU (European Broadcasting Union) er í þegar kemur að akkúrat þessu og forsendurnar fyrir því hvort að við getum eða eigum að setja skilyrði fyrir okkar þátttöku í þessari keppni,“ segir Stefán.
Síðdegis í dag fékk Stefán í hendurnar undirskriftarlista þar sem farið er fram á það að Ísland taki skýra afstöðu gegn Ísrael í keppninni.
Hátt í fimmtíu manns voru viðstaddir afhendinguna og kom það í hlut Semu Erlu Serdar, formanns Solaris, að færa Stefáni listann sem samanstóð af ríflega 9.500 undirskriftum.
Stefán segist sýna kröfunni skilning en bendir jafnframt á að ýmissa sjónarmiða þurfi að gæta þegar komi að því að taka ákvörðun af þessu tagi.
„Ég skil það mætavel að þessi krafa sé sett fram, en á móti kemur að það eru ýmis önnur sjónarmið sem þarf að horfa til og það er það sem ég er að reyna að benda á,“ segir Stefán.
„Og í rauninni er það ekki bara Rúv heldur er það EBU sem er að halda þessa keppni og EBU sem svarar spurningum um það hver munurinn sé til dæmi á Ísrael og Rússlandi þegar að þessu kemur,“ bætir Stefán við og vísar þar með til þess þegar Rússlandi var vikið úr EBU í kjölfar innrásarinnar á Úkraínu.
„EBU hefur svarað því skýrt í hverju munurinn liggi og í kjölfarið er rétt að hafa það í huga að Rússlandi var vikið úr EBU með formlegum hætti og hefur sömuleiðis verið vikið úr Evrópuráðinu. Það á ekki við um Ísrael, Ísrael hefur ekki verið vikið úr ráðinu með sama hætti og í því liggur munurinn.“
Loks kveðst Stefán vera ánægður með mótmæli dagsins sem hann segir hafa farið vel fram. „Fólk hefur skýran og ótvíræðan rétt til þess að koma málefnum sínum á framfæri og þetta var gert á góðan og fagmannlegan hátt.“