Þorlákur Einarsson
Bæði Flokkur fólksins og Miðflokkurinn hafa lýst stuðningi við lagasetningu í vinnudeilu flugumferðarstjóra við Isavia. Þetta kemur fram í samtali mbl.is við þingflokksformenn flokkanna.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, segir: „Við myndum styðja það að sett yrðu lög á verkfall flugumferðarstjóra eins og staðan liggur núna. Tími, stund og aðstæður eru með þeim hætti að það er ekki önnur leið fær í stöðunni.“
„Miðað það sem við höfum heyrt af launakröfum flugumferðarstjóra þá erum við algerlega á því að setja lög á þessa vinnudeilu. Þegar við erum að fara í erfiðan vetur kjaraviðræðna þá verður að stoppa svona,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður þingflokks Flokks fólksins.
Bergþór er ekki sáttur við aðgerðarleysi stjórnvalda. „Það er hreint ótrúlegt að stjórnin sé enn að væflast með þetta sín á milli og virðast ekki ná samtöðu um að leggja málið fram. Ég hreinlega trúi því ekki að stjórnin ætli að bíða þangað til milli jóla og nýárs með að koma fram með frumvarp. Það hlýtur að koma fram á morgun, ef ekki í dag.“
Guðmundur Ingi talar á sömu nótum. „Ég hef verið að heyra í fólki sem er að lenda í stökustu vandræðum, bæði eru börn þeirra að koma heim eða þá að fólk. Þolinmæðin fyrir þessu er alveg á þrotum. Ég hef ekki hitt einn einasta sem hefur samúð með þessum aðgerðum.“