Velja versta tímann til að beita þrýstingi

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kveðst hlynt því að verkfallsaðgerðir …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kveðst hlynt því að verkfallsaðgerðir flugumferðarstjórar verði stöðvaðar. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson/Árni Sæberg

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir út úr kortinu að flugumferðarstjórar ætli að reyna að knýja fram 25 prósent launahækkun rétt fyrir jól. Hún telur líklegt að Flokkur fólksins myndi styðja við að lög yrðu sett á verkfallsaðgerðir þeirra. 

Í samtali við mbl.is segir Inga að enn hafi ekki verið boðað til þingfundar en að þingið hafi velt aðgerðum flugumferðastjóra sín á milli fyrir jólafrí.

Greint var frá í Morgunblaðinu í morgun að líkur bentu til þess að Alþingi yrði kallað saman til að afgreiða frumvarp um lög á verkfallsaðgerðir flugumferðastjóra. Frumvarpið er sagt tilbúið í innviðaráðuneytinu, en Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, vildi ekki staðfesta tilvist þess í samtali við blaðið.

Fara fram á launahækkun á versta tíma

„Ég hef ekki heyrt af lagasetningunni en við vorum bara að velta því fyrir okkur áður en við fórum í frí af hverju í ósköpunum er ekki reynt að bregðast við,“ segir Inga. 

Hún segir erfiða kjarasamningagerð framundan í erfiðu efnahagsástandi, með 8 prósent verðbólgu og 9,5 prósent stýrivexti.

„Fólk er að sligast og þá koma allt í einu flugumferðarstjórar, á versta tíma, og ætla að fara fram á fjórðungs launahækkun. Nei ég bara stend með því að þetta eigi að stöðva, það á að gera það strax og ætti að vera búið að því fyrr,“ segir Inga og bætir við að afgreiða hefði mátt málið fyrir þingfrestun. Það sé að hennar mati merki um vanhæfni núverandi ríkisstjórnar. 

„Þetta er bara klikkun

Hún segir augljóst að flugumferðarstjórar hafi valið tímasetningu verkfallsaðgerðanna til að beita þrýstingi.

Aðgerðirnar raski lífi margra sem séu til dæmis að koma heim um jólin. Hún þekki sjálf dæmi um fólk sem átti að koma heim í morgun hafi þurft að breyta flugum sínum með tilheyrandi kostnaði. 

„Þetta er bara klikkun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka