Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að ætlast sé til þess að deiluaðilar setjist niður og finni lausn á kjaradeilu flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins.
Flugumferðarstjórar luku þriðja verkfalli sínu klukkan 10 í morgun og þeir hafa boðað það fjórða á miðvikudaginn, frá klukkan 4 að nóttu til 10. Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilunni í dag en síðasti fundur var hjá sáttasemjara á föstudaginn.
„Þótt deiluaðilar sitji ekki við samningaborðið eins og er þá ætlumst við til að þeir setjist niður og finni lausn á þessari deilu. Ég held að það sé nokkuð ljóst að þar sem allar stéttir landsins hafi hingað til verið að semja innan þessara marka sem menn mótuðu þá hljóti það að vera umræðuefnið,“ segir Sigðurður Ingi við mbl.is.
„Ábyrgð þeirra sem eru að semja um kaup og kjör er að semja um kaup og kjör. Tjón sem getur orðið gagnvart einstaklingum og samfélaginu er mjög mikið. Við erum inní miðjum náttúruhamförum með heilt byggðarlag á hrakhólum,“ segir Sigurður Ingi ennfremur
Kemur til greina að setja lög á verkfallið?
„Við vöktum þetta en okkur finnst enn möguleiki fyrir þessa aðila að semja og við ætlumst til þess að þeir axli sína ábyrgð,“ segir Sigurður. Hann segir að ef til þess komi að lög verði sett á verkfall flugumferðarstjóra þá verði Alþingi kallað saman.
Það virðist enginn sáttartónn hjá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra og Samtökum atvinnulífsins, sem semur fyrir hönd Isavia en skotin hafa gengið á milli formanns Félags íslenskra flugumferðarstjóra og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
„Ég hef ekki rætt við þessa aðila um þetta mál en miðað við hvað maður heyrir þá virðist bera talsvert á milli í deilunni og það er kannski ástæðan fyrir því að þeir setjast ekki að samningaborðinu. En ég held að það sé enn möguleiki á því og þangað til munum við fyrst og fremst fylgjast með framvindu mála,“ segir Sigurður.