Hekla Guðrúnardóttir Kollmar og Kormákur Snorrason voru á meðal þeirra sem lögðu leið sína að Útvarpshúsinu í dag til þess að mótmæla afstöðu Ríkisútvarpsins til þátttöku Ísraelsríkis í Eurovision-söngvakeppninni sem fram fer í Svíþjóð á næsta ári.
Þau segjast vilja að Ríkisútvarpið endurskoði afstöðu sína gagnvart keppninni, en á meðan að á mótmælunum stóð í dag voru Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra afhentar 9.500 undirskriftir þar sem þess var krafist að Ríkisútvarpið beiti sér fyrir því að Ísrael verði vísað úr Eurovision.
„Ég er hér af því að ég vil sýna að eins og svo margir Íslendingar vil ég ekki vera partur af Eurovision þetta árið,“ segir Hekla.
„Mér hefur eiginlega alltaf fundist frekar fráleitt að hafa verið á sama sviði og Ísrael á meðan að það fremur glæpi sína gagnvart mannkyninu ásamt öllu því sem það heldur áfram að gera palestínsku þjóðinni.
Við látum alltaf eins og þetta sé tækifæri til þess að fagna samlyndi, en í ár er það náttúrulega bara alveg út í hött og mér finnst fáránlegt að Rúv taki ekki afstöðu.“
Spurð hvort hún sé vongóð um að Ríkisútvarpið endurskoði afstöðu sína gagnvart keppninni segir Hekla að um erfiða spurningu sé að ræða. „Ég veit ekki með von. Það er erfitt að tala um von þessa dagana þegar að maður sér tvo mánuði af linnulausum árásum, blóðbaði og eyðileggingu. Maður spyr sig: hvaða hlutverk hefur vonin?“
Kormákur tekur undir með Heklu, en hann segir mikilvægt að ríki eins og Ísland taki skýra afstöðu gagnvart stríðinu.
„Eins og stendur eru mörg lönd ekki að segja neitt gagnvart því sem Ísrael er að gera Palestínufólki og ég held að það þurfi að byrja einhversstaðar. Þó að við séum ekki mjög stór þjóð erum við samt sem áður þjóð,“ segir Kormákur.
Hann segir orð fela í sér kraft og leggur áherslu á mikilvægi þess að fólk tjái sig um ranglæti sem eigi sér stað í heiminum.
Það þarf einhver að segja eitthvað og tala um það sem er í gangi þarna. Þetta er þjóðarmorð og börn, konur og menn eru að deyja í þúsunda tali. Ef enginn ætlar að segja neitt þurfum við að segja eitthvað.“