Maðurinn sem leitað var nærri gosstöðvunum fyrr í kvöld er kominn í leitirnar og er hann heill á húfi. Upphaflega var talið að um tvo menn væri að ræða, en svo var ekki.
Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.
„Þetta var einn maður. Þyrlan er búinn að finna hann og er á leiðinni með hann til baka í bæinn,“ segir Ásgeir.
„Hann var orðinn kaldur og hrakinn og hafði skilið búnaðinn sinn með blikkljósi eftir á öðrum stað og þess vegna var haldið að þetta væru tveir menn.“
Ásgeir segir manninn nú vera kominn í öruggt skjól þar sem hlúð verði að honum.
Fyrr í kvöld voru Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir kallaðar út að gosstöðvunum við Sundhnúkagígaröðina til þess að leita tveggja manna, en Víkurfréttir greindu fyrst frá því að mannanna væri leitað.
Að sögn Ásgeirs var þá talið að sést hefði til tveggja manna gefa eins konar SOS-neyðarmerki í átt til flugvélar sem átti leið hjá gosstöðvunum í kvöld.
Hann sagði mennina hafa verið stadda á milli Keilis og Kistufells og að hvorki hefði verið hægt að staðfesta hverjir mennirnir tveir væru, né hvort um vísindamenn eða göngumenn væri að ræða.
Maðurinn, sem reyndist einn á ferð, hefur nú verið fundinn og hafa Landhelgisgæslan og björgunarsveitin því lokið aðgerðum sínum á gossvæðinu vegna útkallsins.