Allt það helsta um eldgosið

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir gosstöðvarnar á fimmta tímanum í nótt.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir gosstöðvarnar á fimmta tímanum í nótt. Ljósmynd/Almannavarnir

Eldgos hófst við Sundhnúkagígaröðina, norðan við Grindavík, klukkan 22.17 í gærkvöldi í kjölfar skjálftahrinu sem hófst um klukkan 21.   

Eldgosið er mun kröftugra en þau gos sem hafa orðið á Reykjanesskaganum síðustu þrjú ár. Flæddu um 100 til 200 rúmmetrar af kviku upp á hverri sekúndu við upphaf gossins.

Náðu hæstu kvikustrókarnir yfir hundrað metra hæð til að byrja með. Hefur nú dregið verulega úr krafti gossins og hefur skjálftavirknin sömuleiðis dvínað.

Lengd gossprungunnar var talin vera um fjórir kílómetrar í nótt og var syðsti endi hennar í tæplega þriggja kílómetra fjarlægð frá Grindavík í nótt. Ekki hafa fengist upplýsingar nýlega um stærð sprungunnar.

Gossprungan er um fjórir kílómetrar að lengd.
Gossprungan er um fjórir kílómetrar að lengd. Ljósmynd/Lögreglan

Þegar mbl.is ræddi við forstjóra HS Orku í gærkvöldi voru engin sýnileg merki um breytingar á þrýstingi í borholum og voru vatnsgæði jafnframt í lagi. Enginn starfsmaður var í Svartsengi þegar eldgosið braust út.

Lögreglan á Suðurnesjum tilkynnti í gærkvöldi að næstu daga yrði öllum leiðum til Grindavíkur lokað. Verður eng­um hleypt inn á hættu­svæðið við Grinda­vík nema viðbragðsaðilum og verk­tök­um sem eiga er­indi þangað.

Ármann Höskuldsson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, sagði eldgosið við Sundhnúkagígaröðina gjörólíkt síðustu gosum á Reykjanesskaga. Þetta væri mun kraftmeira. Bjóst hann við skammvinnu eldgosi og spáði hann að gosinu yrði lokið eftir nokkra daga.

Þorvaldur Þórðarson á samsettri mynd.
Þorvaldur Þórðarson á samsettri mynd. Samsett mynd

Þorvaldur Þórðarsonprófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, sagði mikið útstreymi brennisteinsdíoxíðs fylgja gosinu. Samkvæmt útreikningum hans í gær má áætla að útstreymið sé um 30 til 60 þúsund tonn á dag.

Hraunið úr gossprungunni rennur aðallega í austur. Þorvaldur telur hraunið ekki geta runnið mjög langt í austur heldur muni það sveigja í suðurátt, eða í átt að Grindavík.

Ármann efast um að hraunrennsli muni ná alla leið til bæjarins, þó það geti teygst í þá átt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert